Í Frakklandi og Bretlandi eru viðvaranir í gildi vegna hitans og á norður Spáni fór hitinn í fjörutíu og þrjár gráður í gær.
Hitanum og þurrkinum fylgja svo skógareldar sem brunnið hafa víða, í Frakklandi, Portúgal, á Spáni og á Grikklandi.
Búist er við að hitamet verði slegið í Bretlandi í dag svo gæti einnig farið í Frakklandi. Í borginni Nantes féll metið í gær þegar hitinn fór í fjörutíu og tvær gráður. Í Bretlandi fór hitinn hæst í þrjátíu og átta komma eitt stig í gær og er óttast að tölurnar fari yfir fjörutíu gráðurnar í dag.
Veðurfræðingar búast síðan við því að síðar í vikunni gæti hitinn náð svipuðum hæðum, eða um fjörutíu gráðum í Belgíu og Þýskalandi.