Enski boltinn

Zinchen­ko á leiðinni til Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oleksandr Zinchenko er á leið til Arsenal.
Oleksandr Zinchenko er á leið til Arsenal. Tom Flathers/Getty Images

Skytturnar halda áfram að kaupa varamenn af Englandsmeisturum Manchester City. Næstur inn er hinn fjölhæfi Oleksandr Zinchenko. Hann mun kosta 30 milljónir punda en heildarkaupverðið gæti numið 32 milljónum þegar fram líða stundir.

Frá þessu greinir hinn áreiðanlegi David Ornstein á Twitter-síðu sinni en Ornstein starfar fyrir The Athletic. Hann segir að hinn 25 ára gamli Úkraínumaður hafi nú þegar náð samkomulagi við Arsenal og þurfi aðeins að standast læknisskoðun.

Zinchenko er annar leikmaðurinn sem skiptir Man City út fyrir Arsenal í sumar en fyrir ekki svo löngu ákvað Gabriel Jesus að færa sig um set eftir að Englandsmeistararnir fjárfestu í tveimur nýjum framherjum.

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, var um tíma aðstoðarmaður Pep Guardiola hjá Man City og heldur áfram að leita í sitt gamla félag að leikmönnum.

Reikna má með að hann verði tilkynntur sem leikmaður Arsenal á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×