Munnlegt samkomulag á milli liðanna á að vera í höfn sem hljómar upp á 30 milljónir punda samkvæmt heimildum breska miðilsins Guardian.
Næst á dagskrá er að Arsenal nái samkomulagi við leikmanninn sjálfan um kaup og kjör. Gangi félagaskiptin í gegn verður Zinchenko fimmti leikmaðurinn sem Arsenal kaupir í sumar á eftir Fabio Vieira frá Porto, Marquinhos frá Sao Paulo, Matt Turner frá New England Revolution og Gabriel Jesus, sem kom einnig frá Manchester City.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, þekkir vel til Zinchenko en hann vann með leikmanninum þegar hann var aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Manchester City á árunum 2016-2019, áður en hann tók við Arsenal.
Zinchenko er 25 ára gamall en hann kom til City frá rússneska liðinu Ufa árið 2016. Zinchenko er að upplagi miðjumaður en hefur oftast spilað sem vinstri bakvörður undir Guardiola hjá Manchester City. Getur leikmaðurinn því leyst margar mismunandi stöður en Goal.com telur að Arsenal muni nota Úkraínumanninn á miðjunni en félagið hefur verið að leitast eftir því að styrkja miðsvæðið frá því að félagaskiptamarkaðurinn opnaði.