Umfjöllun og viðtöl: ÍA-Stjarnan 0-3| Ólafur Karl skoraði úr hjólhestaspyrnu í sannfærandi sigri

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjörnumenn fagna.
Stjörnumenn fagna. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan komst aftur á sigurbraut eftir sannfærandi sigur á Skagamönnum. Annað mark Stjörnunnar gerir tilkall sem mark ársins þar sem Ólafur Karl Finsen skoraði úr hjólhestaspyrnu. Ísak Andri Sigurgeirsson bætti við þriðja marki Stjörnunnar í síðari hálfleik og þar við sat. 

Stjörnumenn mættu særðir inn í leikinn eftir 0-3 tap á heimavelli gegn Leikni í síðustu umferð. Það var orka í Stjörnunni strax á fyrstu mínútu. Þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum fékk Emil Atlason sendingu inn í teig þar sem hann tók boltann í fyrsta og þrumaði honum í netið

Besta færi Skagamann í fyrri hálfleik kom innan við mínútu eftir mark Emils. Heimamenn tóku langt innkast sem skapaði mikla hættu og eftir smá borðtennis datt boltin fyrir Kristian Ladewig Lindberg á markteig en Haraldur Björnsson gerði sig stóran og varði.

Stjörnumenn voru líklegri fyrstu tuttugu og fimm mínúturnar í fyrri hálfleik þar sem þeir gerðu vel í að fara upp hægri kantinn. ÍA náði að komast í betri takt við leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleik en Skagamenn fengu sjö hornspyrnur sem skapaði þó enga áhættu.

Rétt áður en flautað var til fyrri hálfleiks skoraði Ólafur Karl Finsen stórkostlegt mark. Sókn Stjörnunnar byrjaði á því að Haraldur sparkaði boltanum fram þar sem Emil Atlason tók niður boltann og snéri af sér Christian Köhler. Þar gekk boltinn hratt milli manna og endaði á að Ólafur Karl Finsen pikkaði boltanum upp í loftið og endaði á hjólhestaspyrnu sem söng í netinu.

Eftir mark Ólafs flautaði Erlendur Eiríksson fyrri hálfleik af þar sem Stjarnan var tveimur mörkum yfir.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Tveimur mörkum undir gerði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, þrefalda breytingu eftir klukkutíma leik. Ármann Ingi Finnbogason var á meðal leikmanna sem komu inn á. Ármann hristi upp í leiknum og lét mikið til sín taka.

Ísak Andri Sigurgeirsson bætti við þriðja marki Stjörnunnar á 74. mínútu. Emil Atlason vann boltann á miðjum velli þræddi Ísak Andra í gegn sem gerði vel í að pota boltanum framhjá Árna Snæ og skora.

Eftir mark Ísaks datt leikurinn niður þar sem bæði lið voru full meðvituð hvar stigin þrjú myndu enda. Niðurstaðan var 0-3 sigur Stjörnunnar.

Af hverju vann Stjarnan?

Þetta var afar vel uppsettur leikur hjá Stjörnunni og gekk allt upp bæði í varnar og sóknarleiknum. Munurinn á liðunum var að Stjarnan nýtti stöðurnar á síðasta þriðjungi töluvert betur en Skagamenn sem skilaði sér í þremur laglegum mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Emil Atlason var maður leiksins í kvöld. Emil kom Stjörnunni yfir snemma leiks og lagði síðan upp næstu tvö mörk gestanna.

Eggert Aron Guðmundsson leysti stöðu hægri bakvarðar þar sem Óli Valur Ómarsson var seldur til Svíþjóðar á dögunum. Eggert átti afar öflugan leik og sýndi það að hann getur spilað hægri bakvörð ef Stjarnan þarf á því að halda.

Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, sá til þess að Skagamenn myndu ekki skora. Haraldur var öruggur í öllum sínum aðgerðum og varði vel þegar heimamenn settu boltann á markið.

Hvað gekk illa?

ÍA fékk sín færi til að komast inn í leikinn en ákvarðanirnar fyrir framan markið voru afar lélegar. Það er alveg ljóst að það er farið að leggjast á sálina á Skagamönnum að seinasti sigur liðsins kom í apríl mánuði. 

Hvað gerist næst?

ÍA fær Fram í heimsókn mánudaginn 25. júli klukkan 19:15. Sunnudaginn 24. júlí mætast Stjarnan og Víkingur Reykjavík klukkan 19:15.

Ágúst: Annað markið okkar sennilega mark aldarinnar

Ágúst Gylfason var ánægður með sigur kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var afar ánægður með 0-3 sigur á ÍA.

„Mér fannst frammistaðan frábær hér upp á Skaga. Veðrið var gott, við fengum góðan stuðning og ég er virkilega sáttur. Leikurinn einkenndist af frábærum mörkum, sérstaklega annað markið okkar sem er sennilega mark aldarinnar.“ 

Ágúst var ánægður með frammistöðu Eggerts Arons sem spilaði hægri bakvörð þar sem Óli Valur Ómarsson hefur yfirgefið félagið.

„Við þurftum að setja nýjan bakvörð inn í liðið sem er ekki bakvörður og hann stóð sig frábærlega. Miðað við þennan leik er hann mögulega búinn að festa sig í sessi í þessari stöðu hjá okkur.“

 Ágúst var afar ánægður með leikinn frá upphafi til enda og endaði hann á að hrósa sínu liði.

„Þetta var góður dagur, frammistaðan var góð þar sem við sýndum öflugan sóknarleik og vörðumst vel svo ég gat ekki beðið um meira,“ sagði Ágúst að lokum.

 

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira