Umfjöllun og viðtöl: ÍBV-Valur 3-2| Fyrsti sigur Eyjamanna í hús

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Halldór Jón, leikmaður ÍBV, sem skoraði þrennu í dag
Halldór Jón, leikmaður ÍBV, sem skoraði þrennu í dag Vísir/Diego

ÍBV vann sinn fyrsta sigur í Bestu deild karla í fótbolta er liðið tók á móti Val. ÍBV kom sér yfir í fyrri hálfleik 1-0 og vann leikinn að lokum 3-2.

Skemmtanagildið í fyrri hálfleik var afar takmarkað og minnti helst á boðhlaup. ÍBV byrjaði með keflið og voru mjög öflugir fyrsta stundarfjórðunginn en nýttu færin sín ekki nógu vel. Næst tóku Valsmenn við keflinu og áttu góðan kafla um stund en líkt og ÍBV nýttu ekki færin.

Það dró til tíðinda eftir hálftíma leik þegar Alex Freyr Hilmarsson var á ferðinni, gefur boltann fyrir á Halldór Jón Sigurð Þórðarson sem tekur eina snertingu og rennir boltanum svo framhjá Frederik August Albrecht Schram í marki Vals. Staðan 1-0.

Eftir markið settu Valsmenn í fimmta gír og sóttu stíft að marki ÍBV en varnarleikur ÍBV var góður og ekki tókst þeim að jafna metin í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 fyrir ÍBV þegar liðin gengu til klefa.

Það var töluvert meira líf í seinni hálfleiknum. Eftir um stundarfjórðung var Eiður Aron Sigurbjörnsson á ferðinni, rennir boltanum á Halldór Jón Sigurð sem kemur boltanum í netið. Staðan 2-0. 

Rétt áður en ÍBV skoraði annað markið gerði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, skiptingu og setti Aron Jóhannsson inn á. Það var kærkomið fyrir Valsmenn þar sem að Aron var á skotskónum og minnkaði muninn fyrir Val 2-1. 

Um þremur mínútum seinna var Sigurður Egill Lárusson á ferðinni, sendir boltann yfir á Aron Jóhannsson sem jafnar leikinn. Staðan 2-2. 

Þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum brýtur Hólmar Örn Eyjólfsson á Arnari Breka Gunnarsyni í vítateig og eftir nokkra umhugsun var víti dæmt. Felix Örn Friðriksson fór á punktinn fyrir Eyjamenn en Frederik Schram, markmaður Vals, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna frá Felix. 

Á 90. mínútu sendir Alex Freyr Hilmarsson boltann á Halldór Jón sem tekur skotið en Frederik ver. Halldór nær boltanum aftur og rennir honum svo í netið. Halldór Jón þriggja marka maður og vinnur leikinn fyrir ÍBV. Lokatölur 3-2. 

Afhverju vann ÍBV?

Eyjamenn voru þyrstir í sigur á móti vængbrotnu Valsliði. Þeir byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Halldór Jón var frábær í dag og vann leikinn fyrir ÍBV. 

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá ÍBV er ekki spurning hver stóð uppúr. Þriggja marka maðurinn sem var hreint frábær í dag. Hann var allt í öllu og samvinna hans og Alex Freys góð. 

Hvað gekk illa?

Valsmenn voru hálf laskaðir og gekk þeim illa að nýta færin sín. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 24. júlí sækir ÍBV Leikni heim kl 14:00. Valsmenn fara í Frostaskjólið og mæta KR mánudaginn 25. júlí kl 19:15.

Heimir Guðjónsson: „Við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik“

Heimir Guðjónsson var súr í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

„Við vorum mjög góðir fyrsta hálftímann fannst mér, sköpuðum færi. En gerðum mistök, lentum undir og byrjuðum aldrei seinni hálfleikinn. Sýndum þó karakter og komum til baka en við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir tapið á móti ÍBV í dag. 

„Fyrsti hálftíminn var mjög góður. Svo í seinni hálfleik vantaði allt flot á boltann, þetta gekk alltof hægt hjá okkur. Um leið og við settum smá tempó í sóknarleikinn þá opnuðum við þá og jöfnuðum verskuldað. Við vorum sjálfum okkur verstir í endann og töpuðum leiknum.“

Heimir gerði breytingu í seinni hálfleik og setti Aron Jóhannsson inná sem skoraði tvö mörk. 

„Aron kom inn og stóð sig vel. Við breyttum aðeins, fórum í 4-4-2 og náðum að herja betur á vörnina þeirra. Skiptingarnar hleyptu lífi í leikinn hjá okkur en það breytir því ekki að við byrjuðum ekki seinni hálfleikinn nógu vel.“

Fyrir næsta leik vill Heimir losna við einstaklings mistök. 

„Við þurfum að hætta að vera sjálfum okkur verstir og losa okkur við einstaklings mistök. Svo er líka spurning um að mæta betur skóaðir.“

Eiður Aron Sigurbjörnsson: „Það er kannski best fyrir alla að ég skoraði ekki“

Eiður Aron, fyrirliði ÍBV

„Þetta var geggjað. Mér leist ekkert á þegar að þeir jöfnuðu í 2-2 en það er karakter í liðinu og þetta er þvílíkt góð tilfinning,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, sáttur eftir fyrsta sigurinn í Bestu deild karla í dag. 

„Við höfum verið inn í mörgum leikjum eins og Blika leikurinn og KA leikurinn síðast, þetta eru fullt af leikjum en það eru einhver margins sem þurfa að detta með okkur og það gerðist í dag.“

Eiður Aron spilaði fyrir Val frá 2017-2020 og var því að mæta sínum gömlu liðsfélögum í dag. Eiður sagði að það hafi verið extra sætt að landa fyrsta sigrinum á móti þeim. 

„Það er smá extra. Þetta eru fullt af vinum mínum í þessu liði og að ná fyrsta sigrinum á móti þeim það er helvíti góð tilfinning.“

Eiður lagði sig allan fram við að setja boltann í netið í dag en gekk það ekki eftir. Eftir á að hyggja segir Eiður það kannski öllum fyrir bestu að hann hafði ekki skorað þar sem hann hefði ekki vitað hvað hann hefði gert. 

„Ég hefði farið í eitthvað blackout og ég veit ekki hvað hefði gerst. Það er kannski best fyrir alla að ég skoraði ekki.“

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira