Um­fjöllun og viðtöl: Stjarnan-Leiknir R. 0-3 | Leiknis­menn völtuðu yfir Stjörnuna í fyrri hálf­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni sóttu stigin þrjú í Garðabæ.
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni sóttu stigin þrjú í Garðabæ. Vísir/Hulda Margrét

Leiknismenn sóttu þrjú stig í Garðabæinn í kvöld þegar þeir sigruðu Stjörnuna í Bestu deild karla í knattspyrnu. Lokatölur 3-0 en öll mörk Leiknis komu í fyrri hálfleik þar sem þeir léku við hvern sinn fingur.

Leiknismenn byrjuðu af miklum krafti og hefðu getað skorað þrjú mörk á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Bjarki Aðalsteinsson fyrirliði skoraði með skoti úr teignum strax á 7.mínútu en Leiknismenn áttu nokkur skot þar sem Haraldur Björnsson var vel á verði í marki Garðbæinga.

Stjörnumenn voru nálægt því að skora strax í kjölfarið en voru óheppnir þegar Adolf Daði Birgisson fékk boltann í höndina þegar hann var rétt við marklínuna og átti bara eftir að pota boltanum inn.

Á 34.mínútu skoraði Róbert Hauksson frábært mark eftir sendingu Mikkel Jakobsen og þremur mínútum fyrir leikhlé skoraði Mikkel Dahl þegar hann lék á Harald eftir að hafa komist einn innfyrir vörnina. Stjörnumenn vildu rangstöðu en erfitt var að sjá hvort Róbert Hauksson hafi snert boltann þegar Brynjar Hlöðversson sendi hann innfyrir vörnina.

Staðan í hálfleik var 3-0. Fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks voru Stjörnumenn mjög aðgangsharðir og fengu tækifæri til að skora. Það tókst ekki og eftir það voru Leiknsmenn með ágæt tök á leiknum.

Lítið var um færi síðustu tuttugu mínúturnar og Breiðhyltingar sigldu þægilegum sigri í höfn, annar sigur þeirra í röð og annar sigurinn í sumar.

Af hverju vann Leiknir?

Í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í upphafi leiks voru Leiknismenn einfaldlega miklu betra liðið á öllum sviðum knattspyrnunnar. Þeir voru grimmari, spiluðu betur sín á milli og skoruðu mörk. Stjörnumenn voru afar ólíkir sjálfum sér og þó svo að þeir hefðu vissulega getað sett mark á gestina þá áttu þeir lítið annað skilið en að vera 3-0 undir eftir fyrri hálfleikinn.

Leiknismenn stóðu áhlaup Stjörnumanna í upphafi síðari hálfleiks af sér og það var mikilvægt. Mark þá og mögulega hefði kviknað neisti hjá heimamönnum. Leiknismenn sýndu hins vegar þroskaða frammistöðu í síðari hálfleik, voru fastir fyrir og þéttir og héldu markinu hreinu.

Þessir stóðu upp úr:

Bjarki Aðalsteinsson var frábær í vörn Leiknismanna, skoraði mark, stöðvaði fjölmargar sóknir og fórnaði sér fyrir skot heimamanna. Framar á vellinum voru þeir Mikkel Dahl og Mikkel Jakobsen báðir afskaplega góðir, sérstaklega í fyrri hálfleiknum og þá átti Róbert Hauksson frábæran leik á hægri kantinum.

Emil Berger, Birgir Baldvinsson, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Viktor Freyr markvörður voru sömuleiðis traustir og í heild átti Leiknisliðið frábæran leik.

Hjá Stjörnumönnum varði Haraldur Björnsson vel í nokkur skipti og það er lítið hægt að setja út á hann í mörkunum þremur. Aðrir leikmenn Stjörnunnar geta betur og vita það eflaust best sjálfir.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur gekk illa í heild sinni hjá Stjörnunni. Þeir náðu litlu spili manna á milli, voru undir í flestum návígjum og voru linir í varnarleiknum almennt. Þeir áttu fjölmargar misheppnaðar sendingar og uppspilið úr vörninni gekk illa.

Þá verður að minnast á tvö færi sem Stjörnumenn fengu, annað þeirra strax eftir fyrsta mark Leiknis og hitt í upphafi síðari hálfleiks. Þá fengu leikmenn Stjörnunnar boltann í stöðu þar sem lítið var eftir annað en að setja boltann innfyrir línuna en á einhvern ótrúlegan hátt tókst það ekki. Færi sem einfaldlega þarf að nýta.

Þá er spurning með þriðja mark Leiknis hvort dómararnir hafi gert mistök í því atviki og misst af rangstöðu. Stjörnumenn voru æfir en það er erfitt að meta hvort Róbert Hauksson hafi haft áhrif á leikinn, hvort hann hafi verið rangstæður eða hvort Mikkel Dahl hafi verið fyrir innan. Annars var Ívar Orri frábær á flautunni í dag og átti góðan dag ásamt sínum aðstoðarmönnum.

Hvað gerist næst?

Stjarnan heldur upp á Skaga og mætir þar heimamönnum í ÍA. Leiknir fær KA í heimsókn í Breiðholtið og freistar þess að vinna sinn þriðja leik í röð.

Ágúst: Þetta var risastórt atvik

Ágúst Gylfason er þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hag

Ágúst Gylfason þjálfari Stjörnunnar var vitaskuld ekki ánægður með 3-0 tap gegn Leikni í kvöld en hafði skoðanir á þriðja marki Leiknis.

„Fyrst og fremst vil ég hrósa Leiknisliðinu fyrir frábæra innkomu hingað í Garðabæinn, þeir stóðu sig frábærlega vel og við sváfum aðeins á verðinum. Þeir voru sanngjarnt yfir í hálfleik og gerðu okkur erfitt fyrir,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld.

Stjörnumenn fengu vissulega færi til að skora í kvöld en heilt yfir voru þeir undir á flestum sviðum knattspyrnunnar.

„Leiknisliðið var mjög ferskt í dag og verðskulduðu þennan sigur. Þeir voru góðir fram á við og refsuðu okkur. Þeir voru góðir í varnarleiknum og kannski heppnir, þetta var bara erfiður dagur fyrir Garðbæinga og góður fyrir Breiðhyltinga.“

Þriðja mark Leiknis, sem kom á 42.mínútu, var umdeilt og voru Stjörnumenn ósáttir með að ekki hafi verið flögguð rangastaða.

„Þetta var risastórt atvik og hvort hann hafi verið rangstæður eða ekki, hann var allavega vel fyrir innan þegar hann fær boltann og klárar færið vel. Við eigum eftir að skoða þetta en á meðan þú skorar ekki mörk þá kemur þú ekki til baka og það vantaði í okkar leik að ná að setja þetta mark á þá.“

Sigurður Heiðar: Sex leikir í röð sem við erum ánægðir með

Sigurður Heiðar var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét



„Fyrri hálfleikur var mjög góður og í seinni hálfleik taka þeir leikinn yfir eðlilega. Við erum ekki vanir því í sumar að vera í forystu þannig að það var skjálfti í mönnum og menn vildu passa upp á sitt,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir 3-0 sigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

„Ég hefði viljað halda betur í boltann í síðari hálfleiknum en þess þá heldur var varnarleikurinn góður,“ bætti Sigurður við.

Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir Leikni og í upphafi síðari hálfleiks settu Stjörnumenn töluverða pressu á Breiðhyltinga sem stóðu sókn þeirra af sér.

„Það var notalegt að komast í gegnum það án þess að fá á sig mark. Virkilega mikilvægt.“

Róbert Hauksson kom inn í lið Leiknismanna í stað Maciej Makuszewski sem var í leikbanni. Róbert var frábær, skoraði marki og var síógnandi á hægri kantinum.

„Hann var frábær og er búinn að vera frábær í sumar. Hann er búinn að vera óheppinn fyrir framan markið og ég er virkilega ánægður með hans framlag og þá sérstaklega í dag.“

Sigur Leiknis var annar sigur þeirra í sumar en fyrsti sigurinn kom gegn ÍA í síðustu umferð.

„Við erum búnir að vera ánægðir með spilamennskuna og þá sérstaklega í síðustu fjórum leikjunum fyrir leikinn gegn ÍA. Við vorum virkilega ánægðir með þann leik þannig að nú eru komnir sex leikir í röð sem við erum nokkuð ánægðir með.“

„Þegar stigin fylgja svona er skemmtilegra að mæta á æfingar og spila leiki,“ sagði Sigurður að lokum.

Róbert: Líklegra aðeins sætara að taka stig hér

Róbert átti frábæran leik á fyrir Leikni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Róbert Hauksson var frábær í Leiknisliðinu í kvöld, skoraði gott mark og gerði Stjörnumönnum erfitt fyrir oft á tíðum.

„Þetta er það langbesta sem ég hef séð hjá okkar liði nú í sumar, það er klárt. Ég held að þetta sé besti leikur hjá hverjum einasta leikmanni og sérstaklega í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var ekkert síðri, við vissum að við værum 3-0 yfir og ætluðum bara að halda því og ekki missa þetta í neitt rugl,“ sagði Róbert í samtali við Vísi eftir sigur Breiðhyltinga í kvöld.

„Stjörnumenn eru seigir og hafa skorað fullt af mörkum í sumar. Það er rosalega stórt að halda hreinu gegn þeim,“ bætti Róbert við og viðurkenndi að það væri sætara að sækja þrjú stig í Garðabæinn en hann er uppalinn Stjörnumaður.

„Ég hef alltaf gaman af því að taka þrjú stig en það er líklegra aðeins sætara að taka þau hér, vissulega.“

Róbert kom við sögu í þriðja marki Leiknis sem Mikkel Dahl skoraði. Brynjar Hlöðversson átti sendingu á Róbert, sem hins vegar hoppaði yfir boltann og hann datt fyrir Mikkel Dahl sem skyndilega var kominn einn í gegn. Stjörnumenn vildu rangstæðu en markið stóð.

„Ég sný baki í þetta, ég sé að það kemur sending til mín og ég held að það þurfi bara einhverjir menn uppi í stúku að kalla þetta og ég get lítið sagt til um þetta. Það getur vel verið að hann hafi verið rangstæður. Ég snerti að vísu ekki boltann, ætlaði að reyna það og flikka honum í gegn og líklega hefur það haft áhrif og hann ekki verið rangstæður.“

Þórarinn Ingi: Miðað við hvað mínir menn segja þá var þetta rangstaða

Þórarinn Ingi vildi fá dæmda rangstöðu í þriðja marki Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

Þórarinn Ingi spilaði allan leikinn í vinstri bakverði hjá Stjörnunni í kvöld sem þurfti að þola 3-0 sigur gegn Leikni á heimavelli.

„Þeir voru bara betri en við í fyrri hálfleik og grimmari. Við gátum alveg skorað, það er ekki það, en inn fór boltinn ekki. Þeir voru bara drullugóðir í dag,“ sagði Þórarinn Ingi að leik loknum í kvöld.

Leiknir vann sinn fyrsta sigur í Bestu deildinni í síðustu umferð og var því að vinna sinn annan sigur í sumar nú í kvöld.

„Það er oft þannig að þegar lið, sem hafa verið í brasi, ná að tengja sigra þá kemur blóð á tennurnar. Í svona leiki þarftu að mæta af hörku og af fullum krafti sem við gerðum ekki. Í seinni hálfleik fannst mér við „dóminera“ þá og hefðum getað skorað en inn vildi boltinn ekki.“

Þórarinn Ingi lét vel í sér heyra eftir þriðja mark Leiknis og átti meðal annars langt samtal við dómaratríóið á leið sinni inn í leikhlé.

„Miðað við það sem mínir menn segja þá er þetta bara rangstaða, hann hoppar yfir boltann og Bjössi (Björn Berg Bryde) hættir við að sparka honum og hann er kominn í gegn. Ég sá ekki hvort maðurinn sem skoraði var rangstæður en þetta verður bara að koma í ljós. Við skoðum þetta bara en það var ekki þetta sem fór með þennan leik.“

„Við vorum 2-0 undir og auðvitað munar um tvö eða þrjú núll, en við getum litið í eigin barm með fyrstu tvö mörkin og skorað hvað við þurfum að gera betur.“ 

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira