Enski boltinn

Wilshere leggur skóna á hilluna og gæti tekið við unglingaliði Arsenal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jack Wilshere hefur ákveðið að leggja takkaskóna á hilluna.
Jack Wilshere hefur ákveðið að leggja takkaskóna á hilluna. Gonzalo Arroyo Moreno/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Jack Wilshere, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna aðeins þrítugur að aldri.

Wilshere reis hratt upp á stjörnuhimininn og var hann um tíma talin eitt mesta efni enskrar knattspyrnu. Hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Arsenal aðeins 16 ára gamall og 18 ára gamall lék hann sinn fyrsta A-landsleik fyrir England.

Hann hefur hins vegar þurft að glíma við mikil meiðsli stóran hluta ferilsins og á tíu ára tímabili lék hann aðeins 125 deildarleiki fyrir Arsenal. Þaðan fór hann til West Ham þar sem hann náði að leika 16 deildarleiki á tveim árum áður en hann færði sig yfir til Bournemouth. Nú síðast lék hann með AGF í dönsku úrvalsdeildinni, en hann gekk til liðs við danska liðið í febrúar á þessu ári.

Wilshere tilkynnti um ákvörðun sína að hætta í fótbolta á samfélagsmiðlum sínum í dag. Þar þakkar hann fyrir sig og segist hafa lifað drauminn og lætur löng og hjartnæm skilaboð fylgja með.

Wilshere hefur þó ekki sagt skilið við fótbolta þó hann sé hættur að spila sjálfur ef marka má grein sem birtist í The Athletic fyrr í dag.

Þar kemur fram að Wilshere verði ráðinn þjálfari U18 ára liðs Arsenal og að yfirlýsingar þess efnis sé að vænta á næstu dögum.

Í grein The Athletic kemur fram að forráðamenn Arsenal hafi verið virkilega hrifnir af því sem þeir sáu þegar Wilshere vann með yngri leikmönnum félagsins er hann var að sækja sér þjálfararéttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×