Erlent

Segir Si­evi­eródo­netsk á barmi mannúðar­hörmunga

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sjúkraliðar bera lík konu sem var drepinn í loftárásum Rússa á íbúðahverfi í borginni Kharkiv. Eftir að Rússar náðu Sievieródonetsk hafa þeir beint sjónum sínum að Kharkív.
Sjúkraliðar bera lík konu sem var drepinn í loftárásum Rússa á íbúðahverfi í borginni Kharkiv. Eftir að Rússar náðu Sievieródonetsk hafa þeir beint sjónum sínum að Kharkív. AP/Evgeniy Maloletka

Ástandið í hinni hersetnu Sievieródonetsk „er á barmi mannúðarhörmunga,“ segir Serhai Haidai, ríkisstjóri Lúhansk í Úkraínu. Hann segir ekkert miðlægt vatnsveitu-, gasveitu- eða rafveitukerfi í borginni, um 80 prósent alls húsnæðis hafi verið eyðilagt og að Rússar fari ránshendi um borgina.

Haidai birti færslu á Telegram í morgun þar sem hann greinir frá ástandinu í Sievieródonetsk. Þar segir hann að borgin sé á barmi mannúðarhörmunga. Það sé ekkert miðlægt vatnsveitu-, gasveitu- eða rafveitukerfi í borginni og skolpveitur hafi einnig skemmst með þeim afleiðingum að skolp sé farið að safnast upp. 

Þá segir Haidai jafnframt að um 80 prósent af húsnæði í borginni hafi eyðilagst eða orðið fyrir skemmdum. Það fólk sem snúi aftur til borgarinnar vegna eigna sinna segir hann að komi æ oftar að tómum íbúðum af því Rússar séu byrjaðir að stela öllum heillegum húsgögnum sem þeir komist yfir.

Hann segir að grunninnviðir borgarinnar séu nánast gjöreyðilagðir vegna stöðugra árása Rússa frá lokum febrúar og telur að Rússar muni ekki geta byggt borgina upp að nýju. Slíkt magn enduruppbyggingar tæki á friðartímum á bilinu sex mánuði upp í ár ef mannauður og efniviður væru til staðar en Rússar hafi hins vegar hvorugt, segir hann í færslunni.

Talið er að það séu allt að 15 þúsund úkraínskra borgara enn í borginni þó þær tölur hafi ekki verið staðfestar.


Tengdar fréttir

Segir Rússa rétt að byrja í Úkraínu

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að Rússar séu að „rétt að byrja“ í Úkraínu. Þetta sagði hann í samtali við rússneska þingmenn í dag og manaði hann einnig Vesturlönd til að reyna að sigra Rússland á vígvellinum.

Rússar halda uppi stöðugum árásum á íbúðahverfi

Rússar halda uppi stöðugum árásum á borgir og bæi í Donetsk héraði í austurhluta Úkraínu. Forseti Úkraínu segir hersveitir landsins sækja fram í suðurhlutanum og langþráð þungavopn frá Vesturlöndum hafi náð að valda miklu tjóni hjá rússneska innrásarliðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×