Veður

Gul viðvörun víða um land

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðausturland, Norðurland og miðhálendi.
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðausturland, Norðurland og miðhálendi. Veðurstofan

Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Suðausturland, miðhálendi og Norðurland eystra og vestra í dag. Á miðhálendi og Norðurlandi verður viðvörunin í gildi til klukkan 21 en á Suðausturlandi verður hún í gildi alveg fram á miðnætti. Veðurstofan hvetur vegfarendur til að aka varlega á þessum slóðum. Að auki verður rigning með köflum í flestum landshlutum.

Búist er við suðvestan hvassviðri, þrettán til átján metrum á sekúndu, á Suðausturlandi, miðhálendi og Norðurlandi eystra og vestra. Þá má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 35 metrum á sekúndu. Það geti verið varhugavert fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Lægð sem er skammt norðvestur af landinu veldur stífri suðvestanátt og víða um land verður rigning.Veðurstofa

Á vef Veðurstofunnar segir að lægð sem sé skammt norðvestur af landinu valdi stífri suðvestanátt í dag. Víða séu tíu til átján metrar á sekúndu, hvassast á Suðausturlandi og mið-Norðurlandi. Veðurstofan hvetur vegfarendur til að aka varlega á þeim slóðum, einkum þeir sem séu með aftanívagna eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind. 

Þar að auki sé rigning með köflum í flestum landshlutum en úrkomuminna á austanverðu landinu. Hiti sé tíu til tuttugu stig, hlýjast á Austfjörðum.

Það dragi hægt úr vindi og úrkomu í nótt og í fyrramálið. Þá verði vestlæg átt þrír til tíu metrar á sekúndu en tíu til fimmtán metrar á sekúndu suðaustantil í fyrstu. Stöku skúrir en þurrt suðaustantil. Næsta lægð komi til landsins á laugardag með suðaustanátt og rigningu, einkum sunnantil. Hiti verði þá líka á bilinu tíu til tuttugu stig og hlýjast norðaustantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Vestan og norðvestan 5-13 m/s en 10-15 austantil. Súld eða dálítil rigning og hiti víða 8 til 13 stig, en þurrt suðaustanlands með hita að 17 stigum. Lægir seinnipartinn.

Á laugardag: Gengur í suðlæga átt 8-15 með rigningu, en bjart með köflum norðaustanlands. Hiti 12 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag: Suðvestan 5-13 og dálítil rigning eða skúrir, en þurrt að kalla austanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Austfjörðum.

Á mánudag: Norðlæg átt og víða lítilsháttar væta, en þurrt að mestu suðvestantil. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast syðst.

Á þriðjudag: Vestlæg átt og víða smáskúrir. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt með skúrum en þurrt að kalla austantil. Hiti 10 til 15 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×