Íslenski boltinn

Mis­tækir KR-ingar gáfu topp­liðinu hvert markið á fætur öðru

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Breiðablik skoraði fjögur gegn KR.
Breiðablik skoraði fjögur gegn KR. Vísir/ Hulda Margrét

Breiðablik, topplið Bestu deildar karla í fótbolta, gerði sér lítið fyrir og vann KR 4-0 í gær. Gestirnir gerðu sér einkar erfitt fyrir en segja má að fyrstu tvö mörk leiksins hafi verið hrein og bein gjöf. Mörkin má sjá hér að neðan.

Fyrsta markið kom eftir skelfilega sendingu Finns Tómasar Pálmasonar, miðvarðar KR, upp völlinn um miðbik fyrri hálfleiks. Jason Daði Svanþórsson fékk boltann í fætur, hljóp á Arnór Svein Aðalsteinsson áður en hann renndi boltanum á Viktor Karl Einarsson sem skoraði framhjá hjálparlausum Beiti Ólafssyni í marki KR. 

Beitir gaf svo toppliðinu vítaspyrnu þegar hann óð út úr marki sínu þegar tæpar níu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Höskuldur Gunnlaugsson, skoraði úr spyrnunni og staðan 2-0 í hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Ísak Snær Þorvaldsson eftir að Mikkel Qvist skallaði hornspyrnu Höskuldar fyrir fætur hans inn í markteig. 

Það var svo Jason Daði sem batt endahnútinn á sigurinn með marki eftir snotra sókn heimamanna. Skotið hafði þó viðkomu í varnarmanni KR og skoppaði í kjölfarið framhjá Beiti.

Klippa: Besta deildin: Mörkin úr Breiðablik-KR

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir

Atli Sigurjónsson: Við gefum þeim mörkin

Atli Sigurjónsson, sóknarmaður KR, var ansi svekktur eftir 4-0 tap gegn Blikum í Kópavogi í kvöld. KR-ingar byrjuðu vel en voru svo sjálfum sér verstir þegar leið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×