Erlent

Hundruð meta slegin í hitabylgjunni í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ummerki eftir gróðurelda í Zamora-héraði á norðvestanverðum spáni. Eldarnir eru sagðir þeir umfangsmestu á Spáni í áratugi.
Ummerki eftir gróðurelda í Zamora-héraði á norðvestanverðum spáni. Eldarnir eru sagðir þeir umfangsmestu á Spáni í áratugi. Vísir/EPA

Hitabylgja sem gekk yfir hluta meginlands Evrópu um helgina gat af sér hundruð hitameta, ekki síst í Frakklandi þar sem hitinn var hve hæst yfir meðaltali. Í Baskalandi var sögulegt hitamet slegið rækilega.

Hitinn náði víða nokkuð yfir fjörutíu gráður á Spáni, Frakklandi og Þýskalandi um helgina. Hann orsakaðist af hitastrók yfir eyðimörkum Norður-Afríku og lágþrýstisvæðis undan vesturströnd Evrópu sem sogaði heitt loft norður yfir meginlandið, að sögn Washington Post. Litla kælingu var að fá úr Miðjarðarhafinu þar sem yfirborðssjór er um fimm gráðum hlýrri en að meðaltali á þessum tíma árs.

Bylgjan hófst á Íberíuskaga í síðustu viku en spænskir veðurfræðingar segja að hún sé sú öflugasta svo snemma sumars sem sögur fara af. Þrúgandi hitabylgja hafði þegar leikið Spánverja grátt í maí. Þar hafa geisað skæðir skógareldar, sérstaklega á norðanverðum Spáni.

Hámarki var náð um helgina en þá sátu veðurfræðingar sveittir við hitamæla að skrásetja ný met, jafnt mánaðarleg og allsherjarmet.

Í Frakklandi voru á annan tuga meta yfir hæsta hita sem nokkur sinni hefur mælst slegin, þar á meðal í Biarritz á suðvesturströndinni þar sem hitinn mældist 42,9°C. Í Pissos fór hitinn í 43,4°C, aðeins 0,1 gráðu frá hæsta hita sem þar hefur mælst.

Til viðbótar voru að minnsta kosti tvö hundruð mánaðarmet slegin í Frakklandi um helgina.

Í borginni San Sebastián (Donostia) Spánarmegin í Baskalandi fór hitinn í 43,9°C á laugardag, mun heitara en fyrra met.

Sunnudagurinn var heitasti dagurinn í Þýskalandi og nágrannaríkjunum. Í Cottbus, suðaustur af Berlín, sýndi hitamælirinn 39,2°C. Hann hafði aldrei farið svo hátt þar frá því að mælingar hófust. Í Póllandi var nýtt hitamet fyrir júní slegið þegar hitinn náði 38,3°C í Slubice. Mánaðarmet var einnig set í Tékklandi, 39 gráður í Husinec.

Greining á hitabylgjunni nú liggja enn ekki fyrir en í fyrri bylgjum hafa vísindamenn séð skýr merki þess að hnattræn hlýnun af völdum manna hafi gert þær margfalt líklegri en ella. Nú þegar hefur hlýnað um 1,1 gráður á jörðinni borið saman við tímabilið fyrir iðnbyltingu vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa sem rekja má til stórfelldrar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti.


Tengdar fréttir

Skógareldar loga um allan Spán

Ekkert lát er á gríðarlegri hitabylgju á Spáni sem nú hefur staðið í meira en viku. Skógareldar loga um allt land og hefur þurft að rýma á annan tug bæja á Norður-Spáni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.