Íslenski boltinn

Blikar missa einn sinn besta leikmann í glænýtt lið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hildur Antonsdóttir í leik með Breiðabliki í Meistaradeild Evrópu.
Hildur Antonsdóttir í leik með Breiðabliki í Meistaradeild Evrópu. Vísir/Vilhelm

Hildur Antonsdóttir hefur samið við hollenska félagið Fortuna Sittard. Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Fortuna sem og Breiðabliks en hollenska félagið kaupir Hildi af Blikum.

Hin 26 ára gamla Hildur hefur verið burðarás í liði Breiðabliks í sumar. Þessi öflugi miðjumaður, sem hefur leyst stöðu fremsta manns með góðum árangri undanfarið, heldur nú á vit ævintýranna og mun leika með Fortuna í Hollandi næstu tvö árin.

Hildur kemur inn í glænýtt lið því Fortuna Sittard teflir í fyrsta sinn fram kvennaliði á næstu leiktíð, í hollensku úrvalsdeildinni.

Hildur er uppalin í Val en skipti yfir í Breiðablik árið 2016. Hún fór á láni til HK/Víkings 2018 en hefur annars leikið með Blikum síðan þá. Hún á að baki 157 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 32 mörk. Þá á Hildur að baki tvo A-landsleiki.

Á tíma sínum í Kópavogi hefur Hildur landað tveimur Íslandsmeistaratitlum sem og þremur bikartitlum. Það er ljóst að Breiðablik á erfitt verkefni fyrir höndum þegar kemur að því að fylla skarð Hildar sem hefur komið til baka af gríðarlegum krafti eftir að lenda í erfiðum meiðslum árið 2020.

„Það verður missir af Hildi í Kópavoginum, en hún hefur verið ekki aðeins verið frábær í Blikabúningnum innan vallar, heldur einnig mikil fyrirmynd utan vallar. Takk fyrir ómetanlegan tíma í Kópavoginum Hildur, og gangi þér sem allra best í Hollandi þar sem við hlökkum til að fylgjast með þér,“ segir í tilkynningu Blika.

Breiðablik situr sem stendur í 2. sæti Bestu deildar kvenna með 21 stig að loknum 10 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×