Nýtt en kunnuglegt lið er nú næst á eftir Val í titilbaráttunni því Breiðablik kom sér upp fyrir Stjörnuna og Þrótt, í 2. sæti, með 3-0 sigri gegn Þrótturum. Afturelding situr í neðsta sætinu eftir að KR sótti stig til Akureyrar í markasúpu, 3-3.
Anna Rakel Pétursdóttir vann boltann af Selfyssingum á eigin vallarhelmingi og endaði á að skora eina markið í 1-0 sigri Vals með góðu skoti, eftir langan sprett. Elín Metta Jensen fór meidd af velli í leiknum en náði áður að gefa langa sendingu í átt að Önnu Rakel sem skilaði markinu.
Pétur Pétursson, þjálfari Valskvenna, var sérstaklega ánægður með mark Önnu Rakelar og sagði léttur í bragði tímabært að hún „hitti helvítis boltann með vinstri“.
Eyjakonur hafa komið mjög á óvart í sumar og stigu ekki feilspor gegn botnliði Aftureldingar í Mosfellsbæ í gær. Lettneska landsliðskonan Olga Sevcova skoraði í 1-0 sigri ÍBV sem nú situr í þriðja sæti.
Hildur Antonsdóttir var í stuði í Laugardalnum og skoraði tvö lagleg mörk í 3-0 sigri Breiðabliks. Í fyrri hálfleik fékk hún stungusendingu frá Clöru Sigurðardóttur og kláraði færið vel, og í seinni hálfleik stakk hún vörn Þróttar af og skoraði aftur ein gegn markverði. EM-farinn Alexandra Jóhannsdóttir skoraði svo þriðja markið af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Ástu Eirar Árnadóttur.
Keflavík vann óvæntan sigur á Stjörnunni, 1-0, þar sem Elín Helena Karlsdóttir náði að mjaka boltanum yfir marklínuna eftir hornspyrnu í byrjun seinni hálfleiks. Stjarnan missti þar með Breiðablik og ÍBV upp fyrir sig og dróst niður í 4. sæti en Keflavík er nú sex stigum frá fallsæti.
Mesta fjörið var þó án efa á Akureyri þar sem KR-ingar komust tvisvar yfir og gerðu sig líklega til að landa sínum fyrsta útisigri í sumar. Hildur Lilja Ágústsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir skoruðu fyrir KR í fyrri hálfleiknum en Sandra María Jessen jafnaði metin í 1-1 í millitíðinni.
Arna Eiríksdóttir og Margrét Árnadóttir komu svo heimakonum í 3-2 snemma í seinni hálfleik en Rasamee Phonsongkham jafnaði metin fyrir KR þegar tíu mínútur voru eftir.
Besta deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.