Íslenski boltinn

Elín Metta fór meidd af velli og EM mögulega í hættu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Metta hefur byrjað tvo af níu leikjum Íslandsmeistaranna í sumar á varamannabekknum.
Elín Metta hefur byrjað tvo af níu leikjum Íslandsmeistaranna í sumar á varamannabekknum. Vísir/Diego

Elín Metta Jensen, framherji Íslandsmeistara Vals og íslenska landsliðsins, meiddist er Valur heimsótti Selfoss í Bestu deild kvenna á þriðjudag. Gestirnir frá Hlíðarenda unnu 1-0 útisigur en Elín Metta þurfti að fara meidd af velli eftir rúmlega klukkustundarleik.

Elín Metta var valin í landsliðshóp Íslands fyrir Evrópumótið sem fram fer í Englandi. Þar er Ísland í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi. Íslenski hópurinn kemur saman á næstu dögum hefur undirbúning. Þá heimsækir liðið Pólland og spilar þar vináttulandsleik þann 29. júní.

Það verður einfaldlega að koma í ljós hvort Elín Metta nái þeim leik en hún haltraði af velli á Selfossi á þriðjudag. Eftir að hafa legið í grasinu og fengið aðhlynningu þá hreinsaði hún boltann frá eftir hornspyrnu. Virðist það hafa gert illt verra og þurfti hún að fara af velli í kjölfarið. 

Pétur Pétursson, þjálfari liðsins, vonar að ekki sé um neitt of alvarlegt að ræða: „Elín fékk hné í lærið á sér sem bólgnaði upp og ég held að það sé ekkert alvarlegra en það.“

Hin 27 ára gamla Elín Metta hefur spilað 59 A-landsleiki á ferlinum og skorað í þeim 16 mörk. Verði hún til taks á Evrópumótinu er þetta hennar þriðja stórmót með íslenska landsliðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×