Íslenski boltinn

Stór­leikir í Laugar­dal og á Sel­fossi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Selfoss fær Val í heimsókn á meðan Breiðablik mætir Þrótti Reykjavík.
Selfoss fær Val í heimsókn á meðan Breiðablik mætir Þrótti Reykjavík. Vísir/Diego

Níunda umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta fer fram í kvöld. Tveir stórleikir eru á dagskrá og þá verða herlegheitin gerð upp í Bestu mörkunum á Stöð 2 Sport klukkan 22.00 í kvöld.

Íslandsmeistarar Vals keyra suður fyrir fjall og mæta Selfyssingum. Heimaliðið tapaði naumlega á Kópavogsvelli í síðustu umferð og þarf að taka stig, eitt eða fleiri, af gestunum í dag ætli liðið sér ekki að missa efstu fjögur lið deildarinnar fram úr sér.

Valur hefur átt erfitt með lið utan höfuðborgarsvæðisins til þessa á leiktíðinni en liðið tapaði nokkuð óvænt 2-1 fyrir Þór/KA á Akureyri í annarri umferð og þá gerði liðið nýverið 1-1 jafntefli við ÍBV á Hlíðarenda.

Nú er spurning hvort Selfyssingar ætli sér að vera með Þór/KA og ÍBV í flokki eða Keflavík sem steinlá 3-0 gegn Íslandsmeisturunum.

Með sigri gæti Selfoss farið alla leið upp í 2. sæti deildarinnar þar sem Þróttur Reykjavík tekur á móti bikarmeisturum Breiðabliks í Laugardalnum. Sem stendur situr Þróttur sæti ofar með stigi meira en liðin eru í 3. og 4. sæti deildarinnar.

Blikar flakka á milli þess að geta varla skorað í að raða inn mörkum. Það er framan af sumri allavega en liðið lét eitt mark duga er Selfoss mætti á Kópavogsvöll í síðustu umferð. Hildur Antonsdóttir – sem er óvænt farin að spila fremst – skoraði glæsilegt mark og tryggði Breiðabliki 1-0 sigur í skemmtilegum leik.

Breiðablik er með jafnbestu vörn deildarinnar ásamt toppliði Vals og ljóst að ef Blikar vinna sinn leik í kvöld ásamt því að Selfoss taki stig af Val að þá er toppbaráttan í Bestu deild kvenna búin að opnast upp á gátt.

Aðeins eru fjórir dagar síðan Breiðablik og Þróttur Reykjavík áttust við síðast en liðin mættust í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins þann 10. júní. Líkt og í úrslitaleiknum á síðasta tímabili var það Breiðablik sem hafði betur.

Einhverstaðar segir að ómögulegt sé að vinna tvo leiki í röð ef lið nokkuð jöfn að styrkleika mætast í deild og bikar án þess að spila leik þar á milli. Það er nú Blika að afsanna þá kenningu.

9. umferð Bestu deildar kvenna.Bestu mörkin

Svona lítur 9. umferð Bestu deildar kvenna út en stórleikurinn á Selfossi er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þar á undan er leikur Aftureldingar og ÍBV sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Allir leikir eru svo sýndir beint á rás Bestu deildarinnar á Stöð2.is.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.