Enski boltinn

Í fjögurra ára bann fyrir höggið eftir sigur City

Sindri Sverrisson skrifar
Robin Olsen fjarlægir blys sem kastað var inn á völlinn í leik Manchester City og Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Robin Olsen fjarlægir blys sem kastað var inn á völlinn í leik Manchester City og Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/Stu Forster

Stuðningsmaður Manchester City, sem fagnaði Englandsmeistaratitlinum í maí með því að veitast að Robin Olsen, markverði Aston Villa, var sektaður og úrskurðaður í fjögurra ára bann frá fótboltaleikjum.

Stuðningsmaðurinn heitir Paul Colbridge og er 37 ára gamall. Hann var áhorfandi á heimaleik City gegn Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar, þar sem City tryggði sér Englandsmeistaratitilinn með dramatískum endurkomusigri.

Þegar leiknum lauk hljóp Colbridge ásamt fleirum í leyfisleysi inn á völlinn. Hann var einn af þeim sem hæddust þar að Olsen og mun hafa slegið hann í hnakkann.

Olsen lýsti atvikinu svona, við Fotbollskanalen: „Þetta var klárlega sjokk. Það er eitt að fólk hlaupi inn á völlinn en ég býst ekki við því að einhver stökkvi á mig. Þess vegna var þetta áfall.“

Saksóknari sagði Colbridge hafa með hegðun sinni ögrað stuðningsmönnum Villa og ýtt undir að fleiri höguðu sér með sama hætti.

Auk fjögurra ára bannsins fékk Colbridge sekt upp á 795 pund, jafnvirði um 130 þúsund króna.

Colbridge, sem sótt hefur leiki City í yfir tvo áratugi, sagðist strax hafa séð eftir því sem hann gerði. Hann kenndi áfengisneyslu um og sagði um stundarbrjálæði að ræða.


Tengdar fréttir

Robin Olsen til Aston Villa

Aston Villa hefur tryggt sér þjónustu sænska landsliðsmarkvarðarins Robin Olson en hann kemur til liðsins frá Roma. Hann var á láni hjá liðinu frá áramótum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.