Enski boltinn

Roy Keane: Það verður einhver stunginn

Atli Arason skrifar
Roy Keane óttast öryggi leikmanna og þjálfara
Roy Keane óttast öryggi leikmanna og þjálfara Getty Images

Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og sparkspekingur hjá Sky Sports, hefur áhyggjur af auknum innrásum stuðningsmanna inn á leikvelli liða í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er algjörlega út í hött. Það kemur að því að leikmaður eða þjálfari mun verða fyrir alvarlegum meiðslum. Ef þú ert nógu brjálaður til þess að hlaupa inn á völlinn og kýla leikmann þá ertu nógu brjálaður til þess að gera einhverja aðra vitleysu, eins og að stinga leikmann. Eitthvað klikkað gæti skeð,“ sagði Roy Keane á Sky Sports eftir leik Manchester City og Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Robin Olsen, markvörður Everton, varð fyrir árás af stuðningsmanni City þegar stuðningsmenn liðsins hlupu inn á völlinn eftir leikslok til að fagna Englandsmeistara titlinum.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem eitthvað slíkt gerist á Englandi í þessum mánuði. Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, og stuðningsmaður Everton lentu saman eftir innrás stuðningsmanna Everton á leikvöllinn í kjölfar sigurs Everton á Palace í næst síðustu umferð deildarinnar. Billy Sharp varð fyrir árás af stuðningsmanni Nottingham Forest er þeir hlupu inn á völlinn eftir sigur Forest á Sheffield United í umspili um laust sæti í úrvalsdeildinni þann 17. maí.

„Stuðningsmenn eru að koma aftur eftir áhorfendabann í Covid en þeir virðast hafa gleymt hvernig þeir eiga að haga sér. Fávitar, þöngulhausar, skömm. Leikmenn sem eru að ganga út af leikvellinum og verða fyrir árás stuðningsmanna er eitthvað sem við erum búin að sjá of oft undanfarna viku. Við sáum það hjá Forest og svo aftur með Patrick Vieira. Þetta er klúbbunum til skammar,“ sagði Keane og Gary Neville tók undir með honum.

„Að stuðningsmenn gera svona innrás inn á völlinn er vandamál en að ráðast á leikmenn eða þjálfara, hvað í fjandanum er fólk að hugsa,“ bætti Neville við.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.