Um­fjöllun, við­töl og myndir: Breiða­blik-Sel­­foss 1-0 | Heima­liðið upp fyrir gestina í töflunni

Andri Már Eggertsson skrifar
Blikar fagna sigurmarkinu
Blikar fagna sigurmarkinu Vísir/Diego

Breiðablik vann Selfoss 1-0 í lokuðum leik. Bæði lið sköpuðu sér lítið af færum en Breiðablik var sterkari aðilinn og átti sigurinn skilið. Með sigri komst Breiðablik upp fyrir Selfoss i töflunni. 

Leikurinn fór rólega af stað fyrstu fimm mínúturnar en næstu tuttugu mínúturnar spilaði Breiðablik bara á vallarhelmingi gestanna.

Selfoss átti í miklum vandræðum með að losa pressu Breiðabliks og voru heimakonur mikið með boltann á síðasta þriðjungi vallarins. Þrátt fyrir mikla yfirburða Blika voru færin af skornum skammti og komu bestu sóknir heimakvenna upp úr hornspyrnum.

Natasha í baráttunniVísir/Diego

Það dró til tíðinda á 29. mínútu þegar Hildur Antonsdóttir kom Breiðabliki yfir. Taylor Marie Ziemer vippaði boltanum milli varnarlínu Selfoss þar sem Hildur stakk sér inn og þrumaði boltanum í netið.

Gestirnir vöknuðu aðeins við mark Breiðabliks og fóru að sækja af fullum þunga. Miranda Nild fékk besta færi Selfoss í fyrri hálfleik en Telma Ívarsdóttir, markmaður Breiðabliks, varði ' hnitmiðað skot hennar.

Miranda Nild í leik kvöldsinsVísir/Diego

Þegar flautað var til hálfleiks var Breiðablik einu marki yfir.

Það mætti halda að um endurtekið efni hafi verið að ræða í byrjun síðari hálfleiks. Breiðablik byrjaði síðari hálfleik nákvæmlega eins og þann fyrri. Selfoss komst ekki yfir miðju og fékk Breiðablik margar góðar stöður á vellinum en heimakonur nýttu þær illa.

Þegar leið á síðari hálfleik komst leikurinn í meira jafnvægi. Selfoss fór að halda betur í boltann og spila betur úr pressu en skapaði sér engin færi.

Hildur Antonsdóttir var nálægt því að gera sitt annað mark á 72. mínútu eftir góðan undirbúning frá Áslaugu Mundu sem renndi boltanum á Hildi en skot hennar framhjá.

Tiffany Sornpao hafði í nægu að snúast í leiknumVísir/Diego

Seinni hálfleikur var mjög lokaður og sköpuðu liðin lítið sem ekkert af færum. Báðir þjálfararnir reyndu að koma með ferskar lappir af bekknum en það breytti litlu í gang leiksins. Breiðablik vann á endanum 1-0.

Af hverju vann Breiðablik?

Breiðablik hélt boltanum betur og skapaði sér fleiri hættuleg færi. Þrátt fyrir að Breiðablik hafi verið meira með boltann á vallarhelmingi Selfoss var leikurinn nokkuð lokaður. 

Hildur Antonsdóttir gerði laglegt mark í fyrri hálfleik sem reyndist vera sigurmark leiksins.

Hverjar stóðu upp úr?

Hildur Antonsdóttir var hættulegust í sóknarleik Breiðabliks. Hildur var búin að hóta marki skömmu áður en hún skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik.

Natasha Moraa Anasi, leikmaður Breiðabliks, var öflug í vörninni og skallaði allar fyrirgjafir sem komu inn í teig Breiðabliks.

Hvað gekk illa?

Það gerðist lítið sem ekkert í sóknarleik Selfoss. Gestirnir áttu í miklum vandræðum með að skapa sér fær á síðasta þriðjungi.

Hvað gerist næst?

Selfoss fær Val í heimsókn á þriðjudaginn eftir viku klukkan 19:15.

Breiðablik fer á Þróttaravöll og mætir Þrótti næsta þriðjudag klukkan 20:15.

Björn: Ekki fallegasta markið hennar Hildar á ferlinum

Björn Sigurbjörnsson í leik kvöldsinsVísir/Diego

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var svekktur með tap á Kópavogsvelli.

„Þetta var örugglega ekki fallegasta mark sem Hildur [Antonsdóttir] hefur skorað á ferlinum en mark engu að síður. Mér fannst við gera vel gegn best spilandi liði deildarinnar að mínu mati. Vinnuframlagið var gott en þurfum að vera beittari fram á við,“ sagði Björn í samtali við Vísi eftir leik.

Björn var ósáttur með hversu lengi hans lið var að venjast gervigrasinu á Kópavogsvelli.

„Undirlagið var ekki að hjálpa okkur. Boltinn rúllaði meira heldur en við erum vanar á grasinu á Selfossi. Við tókum allt of langan tíma í aðlagast því.“

„Mér fannst við oft flýta okkur of mikið. Við náðum góðum sóknum þar sem við gerðum vel í að spila boltanum og hefðum getað fengið góðar stöður en þá völdum við vitlaust.“

Birni fannst vanta upp á sóknarleik Selfoss þar sem hann hefði viljað sjá fleiri færi.

„Það vantaði meiri þolinmæði á síðasta þriðjungi. Við vorum of mikið að flýta okkur þegar við fengum góðar stöður á vellinum,“ sagði Björn Sigurbjörnsson að lokum.

Myndir

Ásmundur Arnarsson í leik kvöldsinsVísir/Diego
Barátta á miðjum velliVísir/Diego
Telma Ívarsdóttir, markmaður Breiðabliks, í leik kvöldsinsVísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira