Íslenski boltinn

„Missti bara stjórn á skapi mínu og lét það bitna á Ella“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnari Gunnlaugssyni var ekki skemmt þegar KA jafnaði gegn Víkingi.
Arnari Gunnlaugssyni var ekki skemmt þegar KA jafnaði gegn Víkingi. vísir/diego

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk rautt spjald þegar Íslands- og bikarmeistararnir unnu 2-1 sigur á KA í dag. KA-menn jöfnuðu á 79. mínútu þegar Víkingar voru manni færri eftir að hafa ekki getað gert skiptingu.

„Ég missti mig aðeins. Það er hiti og tilfinningar í þessu. Við fengum á mark og ég var ósáttur við hvernig aðstoðardómarateymið framkvæmdi okkar skiptingar. Við vorum með mann meiddan. Ég fór langt yfir strikið, ég viðurkenni það,“ sagði Arnar í samtali við Vísi eftir leik.

En hvað gekk á þegar hann var sendur í skammarkrókinn?

„Við vorum að skipta tveimur mönnum inn á. Davíð [Örn Atlason] og Halli [Halldór Smári Sigurðsson] voru klárir. Davíð fór inn á en ekki Halli. Kalli [Karl Friðleifur Gunnarsson] var meiddur og svo veifaði dómarinn leikinn áfram. Við vorum einum færri, Kalli í vandræðum og einhvern veginn fengum við ekki að skipta,“ svaraði Arnar.

„Svo magnast þetta upp. Markið kom akkúrat Kalla megin og hann var í vandræðum. Ég missti bara stjórn á skapi mínu og lét bitna á Ella [Erlendi Eiríksson, fjórða dómara] og fékk réttilega rauða spjaldið.“

Þrátt fyrir Arnar hefði fengið rautt spjald náðu Víkingar í stigin þrjú þökk sé marki Viktors Örlygs Andrasonar í uppbótartíma.

„Ég sá það sem betur fer. Mér fannst þetta rosalega skrítinn leikur. Mér fannst eins og bæði lið væru örþreytt, sérstaklega vel. Við erum búnir að spila einum leik meira en flest lið í deildinni. Eftir að við skoruðum fyrsta markið féllum við aftarlega sem er ólíkt okkur,“ sagði Arnar.

„KA er með hörkulið og þrýstu okkur neðar og neðar. En svo fundum við auka kraft eftir að þeir jöfnuðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×