Umfjöllun, viðtöl og myndir: Víkingur R. - KA 2-1 | Viktor Örlygur hetja meistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingar fagna sigurmarki Viktors Örlygs Andrasonar.
Víkingar fagna sigurmarki Viktors Örlygs Andrasonar. vísir/diego

Víkingur vann KA í Bestu deild karla með 2-1 sigri í leik liðanna í Víkinni í dag. Viktor Örlygur Andrason skoraði sigurmark Víkings í uppbótartíma.

Ari Sigurpálsson kom Víkingi yfir á 54. mínútu en Nökkvi Þeyr Þórisson jafnaði ellefu mínútum fyrir leikslok. En Víkingar fundu aukakraft undir lokin og Viktor Örlygur tryggði þeim stigin þrjú með laglegu marki á ögurstundu.

Þetta var annar sigur Víkinga í deildinni í röð og hann var heilt á litið sanngjarn. Heimamenn pressuðu vel, voru miklu hættulegri og áttu ekki í miklum vandræðum með að verjast sóknaraðgerðum gestanna sem voru lengst af frekar máttlitlar.

Karl Friðleifur Gunnarsson var utan vallar þegar KA jafnaði.vísir/diego

KA hefur tapað tveimur deildarleikjum í röð eftir að hafa fengið sextán stig af átján mögulegum í fyrstu sex umferðunum. KA er í 3. sæti deildarinnnar með sextán stig, þremur stigum á undan Víkingi sem er í 4. sætinu með þrettán stig.

Víkingar voru talsvert sterkari í fyrri hálfleik og mun aðgangsharðari. Á 11. mínútu fékk Kristall Máni Ingason góða sendingu frá Júlíusi Magnússyni og átti skot sem Steinþór Már Auðunsson varði í stöngina. Júlíus var besti maður vallarins, átti miðjuna með húð og hári, vann boltann ítrekað og skilaði honum vel frá sér.

Á 31. mínútu átti Pablo Punyed skot beint úr aukaspyrnu sem sleikti slána og tveimur mínútum síðar varði Steinþór frábærlega frá Karli Friðleifi Gunnarssyni.

Aukaspyrna Pablos Punyed sem fór í slána.vísir/diego

Ásgeir Sigurgeirsson fékk besta færi KA á 43. mínútu þegar hann átti skot af stuttu færi sem Ingvar Jónsson varði vel. KA-menn áttu annars í vandræðum með spilið sitt í fyrri hálfleik gegn góðri pressu Víkinga. En gestirnir spiluðu nógu góða vörn og Steinþór var með allt á hreinu í markinu.

Eina mark leiksins kom á 54. mínútu. Kristall lyfti þá boltanum yfir á fjærstöngina vinstra megin á Helga Guðjónsson. Hann kom boltanum á endanum fyrir sig og sendi fyrir á Ara sem stýrði boltanum í netið. Átta mínútum síðar átti varamaðurinn Birnir Snær Ingason síðan skot sem Steinþór varði.

Ari Sigurpálsson fagnar eftir að hafa komið Víkingi yfir.vísir/diego

Fátt markvert gerðist næstu mínútur. Víkingar vörðust máttlitlum sóknaraðgerðum KA-manna án mikillar fyrirhafnar og fátt benti til þess að gestirnir myndu jafna. En á 74. mínútu fékk varamaðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson gott en þröngt færi og skaut framhjá.

Fimm mínútum síðar jafnaði Nökkvi þegar hann skoraði með skoti úr vítateignum eftir fyrirgjöf Oleksiis Bykovs. Víkingar voru þá manni færri eftir eitthvað rugl með skiptingar. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var æfur og fékk rautt spjald fyrir kröftug mótmæli.

Daníel Hafsteinsson greinilega ekki sammála Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni, dómara leiksins.vísir/diego

Mátturinn var þarna með KA-mönnum og þeir voru líklegri. En Víkingar sýndu þrautseigju og áttu ás uppi í erminni.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sendi Oliver Ekroth, sem lék sinn langbesta leik fyrir Víking í dag, boltann á Viktor Örlyg sem sneri á Ívar Örn Árnason og skoraði með góðu vinstri fótar skoti í nærhornið sem Steinþór hefði þó sennilega átt að verja. Lokatölur 2-1, Víkingi í vil.

Arnar: Fór langt yfir strikið

Arnar Gunnlaugsson eins og þrumuský.vísir/diego

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk rautt spjald þegar Íslands- og bikarmeistararnir unnu 2-1 sigur á KA í dag. KA-menn jöfnuðu á 79. mínútu þegar Víkingar voru manni færri eftir að hafa ekki getað gert skiptingu.

„Ég missti mig aðeins. Það er hiti og tilfinningar í þessu. Við fengum á mark og ég var ósáttur við hvernig aðstoðardómarateymið framkvæmdi okkar skiptingar. Við vorum með mann meiddan. Ég fór langt yfir strikið, ég viðurkenni það,“ sagði Arnar eftir leik.

En hvað gekk á þegar hann var sendur í skammarkrókinn?

„Við vorum að skipta tveimur mönnum inn á. Davíð [Örn Atlason] og Halli [Halldór Smári Sigurðsson] voru klárir. Davíð fór inn á en ekki Halli. Kalli [Karl Friðleifur Gunnarsson] var meiddur og svo veifaði dómarinn leikinn áfram. Við vorum einum færri, Kalli í vandræðum og einhvern veginn fengum við ekki að skipta,“ svaraði Arnar.

„Svo magnast þetta upp. Markið kom akkúrat Kalla megin og hann var í vandræðum. Ég missti bara stjórn á skapi mínu og lét bitna á Ella [Erlendi Eiríksson, fjórða dómara] og fékk réttilega rauða spjaldið.“

Þrátt fyrir Arnar hefði fengið rautt spjald náðu Víkingar í stigin þrjú þökk sé marki Viktors Örlygs Andrasonar í uppbótartíma.

„Ég sá það sem betur fer. Mér fannst þetta rosalega skrítinn leikur. Mér fannst eins og bæði lið væru örþreytt, sérstaklega vel. Við erum búnir að spila einum leik meira en flest lið í deildinni. Eftir að við skoruðum fyrsta markið féllum við aftarlega sem er ólíkt okkur,“ sagði Arnar.

„KA er með hörkulið og þrýstu okkur neðar og neðar. En svo fundum við auka kraft eftir að þeir jöfnuðu.“

Arnar: Í fyrri hálfleik var bara eitt lið á vellinum

Arnar Grétarsson var ekki sáttur með hvernig hans menn spiluðu í fyrri hálfleik.vísir/diego

Arnari Grétarssyni, þjálfara KA, var ekki skemmt eftir tapið fyrir Víkingi í dag.

„Það er bara svekkelsi að tapa á 92. mínútu. Mér fannst við ekki mæta nógu vel í leikinn. Í fyrri hálfleik var bara eitt lið á vellinum og það var Víkingur. Þeir voru mun betri og mér fannst vanta hugrekki, halda boltanum og hlaupa aftur fyrir þá,“ sagði Arnar eftir leik.

„Ég var svolítið vonsvikinn með það. En í seinni hálfleik var leikurinn mun jafnari. Við byrjuðum nokkuð vel en fengum mark á okkur aðeins gegn gangi leiksins en jöfnuðum og það er alltaf svekkjandi að fá svona á sig. Þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var í lokin. Þetta er fótbolti. Stundum er þetta sætt, stundum súrt og þetta var súrt fyrir okkur núna. En ég er fyrst og fremst ósáttur með fyrri hálfleikinn. Við vorum virkilega slakir þar.“

Þrátt fyrir að hafa tapað tveimur leikjum í röð er KA í 3. sæti Bestu deildarinnar með sextán stig.

„Við viljum alltaf. Frammistaðan gegn Stjörnunni í síðustu umferð var ekki nógu góð og aftur vorum við ekki nógu hugaðir að halda boltanum og finna lausnir þegar við erum pressaðir. Það er svekkjandi,“ sagði Arnar.

„Sextán stig, við eigum þrjá leiki eftir í fyrri umferðinni og þar þurfum við að sækja einhver stig og fara allavega yfir tuttugu stig. Ef við náum því verðum við í efri hlutanum og þar viljum við vera.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira