Erlent

Fer fram á fimm ára fangelsi yfir Macchiarini

Atli Ísleifsson skrifar
Paulo Macchiarini árið 2010.
Paulo Macchiarini árið 2010. EPA

Saksóknari í Svíþjóð hefur farið fram á að ítalski skurðlæknirinn Paulo Macchiarini verði dæmdur í fimm ára fangelsi vegna grófra líkamsmeiðinga á þremur einstaklingum sem fengu grædda í sig plastbarka hjá lækninum. Sjúklingarnir létust allir fáeinum mánuðum eftir aðgerðirnar.

Réttarhöld hafa staðið yfir í málinu síðustu vikurnar, en lokaræður saksóknara og verjanda voru fluttar í dómsal í Stokkhólmi í morgun.

Sjö ár eru nú síðan málið rataði í fjölmiðla eftir að uppljóstrari greindi frá aðgerðum Macchiarini með plastbarka. Sjö sjúklinga Macchiarini sem fengu plastbarka grædda í sig eru nú látnir og þurftu háttsettir menn á Karolinska meðal annars að láta af störfum vegna málsins.

Mikið hefur verið fjallað um réttarhöldin í sænskum fjölmiðlum síðustu vikurnar, en sönnunargögn í málinu telja um fimm þúsund blaðsíður. Málið snýr að aðgerðum á þremur sjúklingum Macchiarini; 36 ára karlmanns sem búsettur var á Íslandi, þrítugum Bandaríkjamanni og svo 22 ára konu frá Tyrklandi, sem framkvæmdar voru upp úr 2010.

Macchiarini sagði fyrir dómara að aðgerðirnar hafi snúið að því að reyna að bjarga veikum einstaklingum, að hann hafi tekið ákvarðanir í samráði við aðra og að það hafi verið sameiginleg niðurstaða að skurðaðgerðirnar væru eini kosturinn í stöðunni.

Sú aðferð sem var notast við skilaði hins vegar ekki tilætluðum árangri og leiddi til mikilla þjáninga sjúklinganna í langan tíma. Þeir létust svo allir.

Macchiarini neitaði sök í málinu, en dómur ætti að falla á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Dóms­mál gegn Macchiarini þing­fest í Sví­þjóð á morgun

Mál sænska ákæruvaldsins gegn ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini verður þingfest í héraðsdómstólnum í Solna á morgun. Macchiarini er ákærður í plastbarkamálinu svokallaða en hann er ákærður fyrir gróft ofbeldi. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.