Erlent

Paolo Macchiarini dæmdur í fangelsi á Ítalíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Paulo Macchiarini.
Paulo Macchiarini. Vísir/afp
Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hefur verið dæmdur í sextán mánaða fangelsi á Ítalíu.

Frá þessu er greint á vef sænska ríkisútvarpsins og vísað í fréttaflutning ítalskra miðla. Var Macchiarini meðal annars sakfelldur fyrir að misnota aðstöðu sína og falsa gögn.

Macchiarini var dæmdur í fangelsi síðastliðinn föstudag. Brot hans voru framin á árunum 2009 til 2012 þegar hann starfaði við sjúkrahúsið í Flórens.

Misnotaði læknirinn aðstöðu sína og falsaði gögn þegar hann framkvæmdi barkaaðgerð á vini sínum, en vinurinn hefði með réttu átt að greiða fyrir aðgerðina þar sem hann var ekki með evrópskt sjúkratryggingakort.

Þá var Macchiarini einnig sakfelldur fyrir að falsa biðlista og önnur skjöl þau ár sem hann starfaði í Flórens.

Vísað til Macchiarini af íslenskum læknum

Árið 2010 hóf Maccharini að starfa við Karolinska-sjúkrahúsið í Stokkhólmi og var það þar sem hann græddi plastbarka í Erítreumanninn Andemariam Beyene árið 2011.

Andemariam var vísað til Macchiarini af íslenskum læknum en ítalski læknirinn öðlaðist heimsfrægð við aðgerðina. Tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina lést Andemariam.

Tveir sjúklingar til viðbótar fengu grædda plastbarka í sig af Macchiarini þegar hann starfaði við Karolinska. Þeir dóu einnig og hafa yfirvöld í Svíþjóð andlát Andemariam og eins annars sjúklings enn til rannsóknar.

Saksóknarar í Svíþjóð höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að fella niður mál gegn skurðlækninum þar sem ekki taldist vera hægt að sanna það með óyggjandi hætti að aðgerðirnar hafi leitt til dauða sjúklinganna.

Sekur um vísindalegt misferli

Árið 2017 komst opinber siðanefnd í Svíþjóð að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli við rannsóknirnar á ígræðslunum. Um mitt ár 2018 dró síðan læknatímaritið Lancet til baka tvær vísindagreinar eftir skurðlækninn sem fjölluðu um plastbarkaígræðslur.

Andemariam hafði búið á Íslandi og glímdi við krabbamein í barka þegar hann var sendur utan til Svíþjóðar árið 2011. Tómas Guðbjartsson var læknir Andemariam og í hópi meðhöfunda greinanna eftir Macchiarini þar sem fjallað var um rannsóknir á sjúklingum.

Rannsóknarnefnd, sem forsvarsmenn Háskóla Íslands og Landspítala skipuðu, rannsakaði þátt íslensku læknanna sem tengjast málinu og skilaði sinni skýrslu í lok árs 2017.

Þar kom meðal annars fram að Macchiarini hafi blekkt Tómas til að breyta tilvísun sem hafi vart verið í samræmi við læknalög. Þá hafi Tómas ekki sýnt næga aðgæslu í samskiptum sínum við ítalska skurðlækninn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.