Um­fjöllun: ÍBV - ÍA 0-0 | Ekkert mark en tvö rauð spjöld í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Andri Rúnar Bjarnason klúraði vítaspyrnu á ögurstundu.
Andri Rúnar Bjarnason klúraði vítaspyrnu á ögurstundu. Vísir/Vilhelm

Sólin skein og vindur var í lágmarki þegar Eyja- og Skagamenn gerði markalaust jafntefli á Hásteinsvelli í dag. Bæði lið í neðri hluta töflunnar í leit að stigum. ÍBV enn án sigurs og Skagamenn búnir að tapa síðustu þremur leikjum sínum.

Það voru heimamenn sem stjórnuðu ferðinni á upphafsmínútum leiksins en gestirnir áttu fyrsta alvöru færið þegar Steinar Þorsteinsson fékk boltann á lofti inni í teig en hitti boltann ekki nægilega vel. ÍBV hefur átt í vandræðum með að skora mörk á tímabilinu þrátt fyrir ágætis spilamennsku á köflum og réðu þeir lögum og lofum á vellinum í dag, án þess að skapa nein alvöru færi. Gestirnir beittu skyndisóknum og fengu sín færi en án árangurs.

Alex Davey, miðvörður ÍA.Vísir/Vilhelm

Eftir að Alexander Davey, varnarmaður gestanna, hafði bjargað nánast á línu frá Elvis Okello, leikmanni ÍBV, leit besta færi fyrri hálfleiks dagsins ljós. Eyþór Wöhler fékk þá boltann inn fyrir vörn Eyjamanna og var einn gegn Guðjóni Orra Sigurjónssyni, markverði ÍBV, en Guðjón kom út á móti Eyþóri og varði vel. Staðan því markalaus í hálfleik.

Elvis átti eftir að koma frekar við sögu í síðari hálfleiknum en eftir tíu mínútna leik fékk hann að líta gula spjaldið fyrir að slá boltann úr höndum Steinars sem bjó sig undir að taka innkast. Tíu mínútum síðar sparkaði hann svo í Guðmund Tyrfingsson, leikmann Skagamanna, þegar boltinn var ekki í leik og fékk fyrir það sitt annað gula spjald og þar með rautt. Rúmar tuttugu mínútur eftir og Eyjamenn manni færri.

Fram að rauða spjaldinu hafði leikurinn verið í járnum og lítið um færi, eins og í fyrri hálfleiknum, en við það að lenda manni færri virtust heimamenn eflast og sóttu þeir nánast án afláts það sem eftir lifði leiks. Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, þurfti að taka á honum stóra sínum þegar Hans Mpongo, sem kom inn á sem varamaður í liði ÍBV, átti skot af stuttu færi.

Þegar fimm mínútur eftir lifðu leiks urðu liðin jöfn á ný þegar Jón Gísli Eyland Gíslason fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Arnari Breka Gunnarssyni. Úr aukaspyrnunni varð skothríð að marki gestanna en Árni Snær varði frábærlega á línu þegar hann blakaði boltanum í burtu eftir skalla Eiðs Arons Sigurbjörnssonar áður en Andri Rúnar Bjarnason skaut að marki en aftur var bjargað á línu.

Þegar djúpt í uppbótartíma var komið fengu Eyjamenn besta marktækifæri leiksins þegar vítaspyrna var dæmd. Aron Bjarki Jósepsson braut þá á Andra Rúnari. Andri Rúnar, vítaskytta ÍBV, þurfti að hafa fyrir því að fá boltann því Hans Mpongo ætlaði sér að taka spyrnuna. 

Úr varð vandræðalegt augnablik en Andri fékk þó loks boltann og stillti sér upp gegn Árna Snæ. Andri skaut beint á markið en þrátt fyrir að Árni hafi skutlað sér náði markvörðurinn að reka fæturna í boltann sem fór upp í þverslánna og út. Sekúndum síðar var flautað til leiksloka og niðurstaðan því markalaust jafntefli og eitt stig á lið.

Árni Snær reyndist hetja Skagamanna.Vísir/Vilhelm

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið fengu færi en þegar á hólminn var komið brást leikmönnum bogalistin og þá einna helst Andra Rúnari sem brenndi af víti á lokasekúndum leiksins.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnir beggja liða stóðu vaktina vel í dag. Eiður Aron og Sigurður Arnar Magnússon í liði ÍBV, eins og Alexander Davey og Aron Bjarki hjá ÍA. Árni Snær bjargaði gestunum einnig stórkostlega tvisvar sinnum í leiknum. Arnar Breki, sem kom inn sem varamaður í hálfleik hjá ÍBV, var einnig mjög sprækur og átti marga góða spretti.

Hvað gekk illa?

Í markalausum leik er hægt að hrósa varnarmönnum og markmönnum og lasta sóknarmenn. Mörg góð tækifæri fóru forgörðum og hefði verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði þróast hefðum við fengið mark snemma leiks. 

Elvis Okello átti ágætis leik en þessi spjöld sem hann fékk voru eintóm vitleysa af hans hálfu og þrátt fyrir að Eyjamenn hafi leikið vel manni færri þá setti hann liðið samt í leiðindastöðu. Hans Mpongo færi einnig last fyrir að neita að láta vítaskyttu Eyjamanna hafa boltann en með þessu setti hann einungis auka pressu á Andra Rúnar.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara í Garðabæinn og eiga þar framundan erfiðan leik gegn Stjörnunni en Skagamenn taka á móti Keflvíkingum.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.