Enski boltinn

Stuðningsmaður skallaði fyrirliða Sheffield United í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Flestir stuðningsmenn hlupu inn á völlinn til að fagna leikmönnum Nottingham Forest en ekki allir.
Flestir stuðningsmenn hlupu inn á völlinn til að fagna leikmönnum Nottingham Forest en ekki allir. Getty/ Joe Prior

Paul Heckingbottom, knattspyrnustjóri Sheffield United, þurfti ekki aðeins að tala um svekkjandi tap á móti Nottingham Forest í umspili ensku b-deildarinnar í gær heldur einnig skammarlega framkomu stuðningsmanns í leikslok.

Sheffield United spilar ekki á Wembley um lausa sætið í ensku úrvalsdeildinni eftir tap í vítakeppni á móti Nottingham Forest í gær.

Eftir leikinn, þegar áhorfendur streymdu inn á völlinn, þá hljóp einn stuðningsmaðurinn upp að fyrirliðanum Billy Sharp og skallaði hann.

„Þetta er hrein árás. Við sáum marga okkar leikmenn verða fyrir árásum. Það blæðir úr honum og hann er reiður. Við munum taka á þessu,“ sagði Paul Heckingbottom eftir leikinn. Sharp var ekki leikfær og því ekki að spila leikinn í gær.

Sheffield United og Nottingham Forest fordæmdu bæði þessa árás.

„Nottingham Forest blöskrar að frétta af því að fyrrum leikmaður okkar, Billy Sharp, varð fyrir árás í kvöld þegar hann var að yfirgefa völlinn eftir leikinn á City Ground,“ sagði í yfirlýsingunni frá Nottingham Forest og þar kom enn fremur fram:

„Félagið mun vinna með yfirvöldum í að vinna sökudólginn og hann þarf að bera ábyrgð á sinni hegðun sem þýðir meðal annars lífstíðarbann frá leikjum Nottingham Forest. Félagið vill einnig biðja Billy persónulega afsökunar sem og Sheffield United félagið.“

Sheffield United vann leikinn 2-1 á útivelli en Nottingham Forest hafði unnið fyrri leikinn með sama mun. Því þurfti vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Forest vann hana 3-2 eftir að þrír leikmenn Sheffield United klikkuðu.

Nottingham Forest mætir Huddersfield Town á Wembley í hreinum úrslitaleik um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni 2022-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×