Íslenski boltinn

KR ekki með vallarþul og virka klukku: „Ekki boðlegt í Bestu deildinni“

Sindri Sverrisson skrifar
KR-konur eru mættar aftur í efstu deild en umgjörðinni í kringum liðið virðist ábótavant.
KR-konur eru mættar aftur í efstu deild en umgjörðinni í kringum liðið virðist ábótavant. vísir/vilhelm

Umgjörðin hjá KR í síðasta leik liðsins í Bestu deild kvenna í fótbolta þótti hreint ekki til fyrirmyndar og var gagnrýnd í nýjasta þætti Bestu markanna.

KR-konur sneru aftur upp í efstu deild fyrir þessa leiktíð en umgjörðin í kringum liðið á Meistaravöllum þykir ekki í úrvalsdeildarklassa. Vallarþul vantaði á leik liðsins við Breiðablik á föstudagskvöld, og vallarklukkan var ekki í gangi.

„Það er skrítið að þurfa að tala um svona hluti á tímum sem maður hélt að allt væri á réttri leið í þjóðfélaginu. Þó er best að segja það, KR verður að fara að setja sömu virðingu í kvennastarfið og karlastarfið,“ skrifaði Hafliði Breiðfjörð, eigandi Fótbolta.net, í skýrslu sinni um leikinn.

Helena Ólafsdóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir hjuggu í sama knérunn í nýjasta þætti Bestu markanna á Stöð 2 Sport:

„Þetta er náttúrulega ekki boðlegt í Bestu deildinni. Vallarþulurinn var ekki heldur þarna. Hvort það hoppaði einhver í hlutverkið í hálfleik. Enginn vallarþulur og engin klukka… þetta á að vera í lagi,“ sagði Sonný Lára.

„Við köllum eftir því. Meistaravellir eiga að standa fyrir slíku,“ sagði Helena.

Klippa: Bestu mörkin: KR ekki til fyrirmyndar

Besta deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×