Enski boltinn

Heilarannsóknateymi hjálpaði Liverpool að vinna báða bikarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool mennirnir Divock Origi, Naby Keita, Sadio Mane og Ibrahima Konate með bikarinn eftir leik.
Liverpool mennirnir Divock Origi, Naby Keita, Sadio Mane og Ibrahima Konate með bikarinn eftir leik. Getty/Ian Walton

Liverpool hefur unnið tvo titla á tímabilinu og þá báða eftir sigur í framlengdri vítakeppni á Wembley. Leikmenn Liverpool hafa verið sterkari á taugum í vítakeppnunum og það kemur ekki alveg af sjálfu sér.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá samvinnu við fjóra Þjóðverja eftir sigurinn á Chelsea í bikarúrslitaleiknum um helgina. Klopp gekk svo langt að tileinka þeim sigurinn.

Liverpool nýtti allar vítaspyrnur sína nema eina og vann 6-5 sigur á Chelsea á laugardaginn. Klopp talaði eftir leikinn um samvinnu Liverpool og þýska taugarannsóknarfyrirtækisins neuro 11.

Fyrirtækið var stofnað af Dr Niklas Hausler og Patrick Hantschke og hefur aðsetur í Þýskalandi. Markmið þess er að fylgjast með heilastarfsemi leikmanna til að ná því besta fram hjá þeim.

„Við erum í samstarfi með fjögurra manna fyrirtæki sem kalla sig neuro 11,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Þeir höfðu samband við okkur fyrir tveimur árum en ég held að ég hafi vitað af þeim þá. Einn af þeim er taugasérfræðingur og hann sagði mér að þeir geti undirbúið menn fyrir að taka þátt í vítaspyrnukeppnum,“ sagði Klopp.

„Virkilega og svo svaraði ég. Þetta er áhugavert, komið til okkar,“ sagði Klopp.

„Þetta er þýskur gæi og við hittumst. Þessi bikar er tileinkaður þeim eins og þegar við unnum deildabikarinn,“ sagði Klopp.

Í báðum úrslitaleikjum vann Liverpool lið Chelsea í vítakeppni. Í deildabikarúrslitaleiknum þá nýtti Liverpool liðið allar ellefu vítaspyrnur sínar. Að þessu sinni skoruðu allir nema Sadio Mane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×