Umfjöllun og viðtöl: KA 1-0 FH | Dramatík fyrir norðan

Árni Gísli Magnússon skrifar
Nökkvi Þeyr var hetja KA í kvöld.
Nökkvi Þeyr var hetja KA í kvöld. Vísir/Vilhelm

KA vann dramatískan 1-0 sigur á FH á Dalvíkurvelli í kvöld þar sem Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á þriðju mínútu uppbótartíma.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en FH-ingar fóru fljótlega að halda boltanum betur sín á milli og ná upp ágætis spili. KA liðið er alltaf vel skipulagt og gáfu þeir fá færi á sér og vörðust vel.

Á 24. mínútu geystust FH-ingar upp völlinn og Matthías Vilhjálmsson var kominn með boltann mjög utarlega í teignum og setti hann fyrir markið þar sem Steinþór Már var kominn út úr markinu en það vantaði samherja til að binda endahnút á sóknina sem rann að lokum út í sandinn.

Þremur mínútum síðar fóru heimamenn í skyndisókn þar sem Hallgrímur Mar fékk boltann úti hægra megin og setti hann fast niðri inn á Nökkva Þey á teignum sem skaut boltanum í slánna og þaðan datt hann niður rétt við marklínuna og gestirnir sluppu með skrekkinn.

FH fékk á næstu mínútum tvö fín færi. Matthías Vilhjálmsson átti fast skot sem Steinþór Már varði í horn og eftir hornspyrnuna fékk Björn Daníel ágætis skallafæri en boltinn lak fram hjá.

Rúmum 10 mínútum fyrir hálfleik fékk svo Nökkvi Þeyr aftur fínt færi en Gunnar Nielsen varði fast skot hans meðfram jörðinni.

Seinni hálfleikur var einungis þriggja mínútna gamall þegar Nökkvi Þeyr fékk boltann í teig FH eftir klaufagang í vörn þeirra en skot hans fór í stöngina í annað skiptið í leiknum og enn markalaust.

Leikurinn var svo nokkuð bitlaus fram að síðasta stundarfjórðungnum en á 73. mínútu átti bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert hörkuskot fyrir utan steig sem fór í slánna og niður. Heimamenn óheppnir og óheppnin elti þá áfram því þegar fimm mínútur lifðu leiks átti Ívar Örn hörkuskalla í slánna eftir hornspyrnu og þaðan hrökk boltinn á Dusan Brkovic sem var mjög nálægt markinu en Gunnar Nielsen kastaði sér fyrir boltann og bjargaði marki.

Það stefndi allt í jafntefli en þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulega leiktíma ætlaði Vuk Oskar Dimitrijevic að negla boltanum fram en títtnefndur Nökkvi Þeyr komst fram fyrir hann og í boltann sem varð til þess að Vuk sparkaði hann niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Nökkvi steig sjálfur á punktinn, líkt og í síðasta heimaleik, og setti boltann fast í hægra hornið og tryggði KA dramatískan 1-0 sigur.

Af hverju vann KA?

Þeir voru með minna með boltann en sköpuðu sér helling af færum sem sést best á því að þeir setja boltann fjórum sinnum í tréverkið. Þeir fá svo vítaspyrnu í blálokin sem tryggði sigurinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Nökkvi Þeyr var lang hættulegasti maður vallarins. Fékk mörg færi, setti boltann tvisvar í tréverkið og fiskaði svo vítaspyrnuna sem hann skoraði sigurmarkið úr.

Þá var varnarleikur KA frábær með Ívar Örn Árnason og Dusan Brkovic í hafsentastöðunum og Rodri verndaði þá vel.

Hjá FH varði Gunnar Nielsen nokkrum sinnum vel. Þá var Matthías Vilhjálmsson einna mest skapandi hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

KA gekk brösulega að skora úr færunum sínum þangað til í blálokin en FH gekk ekki nægilega vel að koma sér í færi þrátt fyrir að halda boltanum vel.

Hvað gerist næst?

KA fer á Skagann og mætir ÍA á sunnudaginn kemur kl. 17:00.

FH fær ÍBV í heimsókn sama dag kl. 14:00.

„Við erum bara vél sem mallar”

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, tók út leikbann í þessum leik en Hallgrímur Jónasson stýrði liðinu í hans stað í kvöld. Hallgrímur gat ekki annað en verið kátur eftir dramatískan sigur gegn FH.

„Tilfinningin er virkilega góð, þetta tók tíma, við skorum alveg í lokin, þetta er náttúrulega alltaf sætir sigrar en mér fannst við eiga þetta fyllilega skilið, við eigum fjögur skot í stöng og slá þannig að við spilum seinni hálfleikinn virkilega vel.”

KA átti fjögur stangarskot í leiknum og fengu auk þess fleiri færi. Hallgrími var skiljanlega létt þegar markið loksins kom.

„Það kom í lokin, við erum bara vél sem mallar. Menn eru með sín hlutverk á hreinu, við erum að skapa færi í hverjum einasta leik, í síðasta leik erum við einum færri í 60 mínútur en náum samt úrslitum þannig við erum að gera vel og það er gaman að sjá hvað það er flottur karakter í liðinu, það eru allir að berjast og þeir sem komu inn á höfðu líka mjög góð áhrif á leikinn og breyttu svolítið leiknum fyrir okkur.”

„Við erum búnir að vera núna með sömu hugsun í svolítinn tíma þannig að menn eru orðnir drillaðir og við vorum í erfiðleikum í fyrri hálfleik með að geta spilað fram á við, FH-ingar spiluðu vel með vindinum og fengu örugglega 6 eða 8 hornspyrnur sem við bara náðum að verjast og það var smá brekka á tímabili en svo töluðum við um nokkra hluti í hálfleik og breyttum og áttum virkilega sterkan seinni hálfleik”, sagði Hallgrímur ennfremur.

KA eru taplausir eftir fimm leiki með fjóra sigra og eitt jafntefli og menn eru ánægðir með uppskeruna hingað til fyrir norðan.

„Við erum mjög sáttur og við erum bara að sýna góðar frammistöður, það eru allir að vinna fyrir liðið, við erum mjög þéttir, menn eru með sín hlutverk á hreinu þannig við erum mjög ánægðir bæði með varnarvinnuna og stigasöfnunina en eins og alltaf þá eru einhver atriði þar sem maður er ekki alveg sáttur, það eru einhver atriði sem við viljum gera aðeins betur.”

Oleksii Bykov var dæmdur í tveggja leika bann eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn KR. Hallgrímur vildi lítið tjá sig um það en var augljóslega ekki sáttur.

„Ég ætla ekkert að kommenta hvort það séu tveir leikir eða einn leikur það eru bara reglur sem þeir fara eftir en við vorum ósáttir, við teljum hann ekki hafa skallað manninn, það var stigið aftan á hann viljandi og þeir fara saman haus í haus og annar lætur sig detta og þá fær hann rautt. Við erum ekki sammála en það er búið að dæma í því, búið og gert. Dusan (Brkovic) og þeir sem koma inn í dag stóðu sig frábærlega þannig við erum búnir að leggja þetta bak við okkur og höldum áfram.”

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.