Enski boltinn

Stjórar Arsenal framlengja báðir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonas Eidevall og Mikel Arteta sáttir á Emirates.
Jonas Eidevall og Mikel Arteta sáttir á Emirates. getty/Stuart MacFarlane

Knattspyrnustjórar karla- og kvennaliða Arsenal hafa báðir framlengt samninga sína við félagið.

Mikel Arteta, sem stýrir karlaliði Arsenal, skrifaði undir nýjan samning sem gildir til 2025. Hann tók við Skyttunum í lok árs 2019. Undir hans stjórn varð Arsenal bikarmeistari 2020.

Jonas Eidevall tók við kvennaliði Arsenal fyrir þetta tímabil. Hann framlengdi samning sinn til 2024. Eidevall gerði Rosengård þrívegis að sænskum meisturum áður en hann kom til Arsenal. Hjá Rosengård þjálfaði hann íslensku landsliðskonurnar Söru Björk Gunnarsdóttur, Glódísi Perlu Viggósdóttur og Guðrúnu Arnardóttur.

Kvennalið Arsenal á enn möguleika á að verða Englandsmeistari. Liðið er í 2. sæti ensku deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Chelsea. Í lokaumferðinni á sunnudaginn mætir Arsenal Dagnýju Brynjarsdóttur og stöllum hennar í West Ham United. Chelsea fær hins vegar Maríu Þórisdóttur og samherja hennar í Manchester United í heimsókn.

Karlalið Arsenal er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 63 stig, tveimur stigum á undan Tottenham sem er í 5. sætinu og þremur stigum á eftir Chelsea sem situr í 3. sætinu. Á sunnudaginn tekur Arsenal á móti Leeds United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×