Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Breiða­blik 1-0 | Dramatík er Kefla­vík tyllti sér á topp Bestu deildarinnar

Atli Arason skrifar
Keflavík vann frækinn sigur á Breiðabliki í kvöld.
Keflavík vann frækinn sigur á Breiðabliki í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og tylltu sér á topp Bestu deildarinnar með 1-0 sigri á öflugu liði Breiðabliks í kvöld.

Leikurinn í kvöld var algjör einstefna fyrstu 30 mínúturnar. Blikar sóttu stanslaust og áttu fjöldann allan af marktilraunum. Þau skot sem fóru ekki framhjá marki Keflavíkur tók markvörðurinn Samantha Murphy til sín. Murphy átti frábæran leik í kvöld og átti trekk í trekk ótrúlegar markvörslur sem hélt Keflavík inn í leiknum. Það var svo sennilega gegn gangi leiksins sem Keflavík skorar á 34. mínútu þegar heimakonur eiga hornspyrnu af hægri væng. Aníta Lind spyrnur boltanum fyrir mark Breiðabliks þar sem Amelía Fjelsted mætir knettinum og kemur honum yfir marklínuna, 1-0 fyrir Keflavík. Murphy réð svo við allt sem Breiðablik bauð upp á það sem eftir lifði fyrri hálfleik og heimakonur voru marki yfir í hálfleikshléinu.

Blikar halda áfram að þjarma að Keflvíkingum í síðari hálfleik en inn vildi boltinn ekki. Á 74. mínútu á Anna Petryk, leikmaður Breiðabliks, viðstöðulaust þrumuskot eftir undirbúning Ástu Eir Árnadóttur en Murphy á markvörslu sem erfitt, ef ekki ómögulegt, verður að toppa. Markvarsla tímabilsins verður hér fullyrt. Áhorfendur í Keflavík stóðu flestir á fætur og trúðu ekki sínum eigin augum. Blikar gerðu margar sóknarsinnaðar skiptingar og gerðu hvað þær gátu það sem eftir lifði leiks að koma boltanum í netið en án árangurs. Besta tækifærið kom hins vegar í uppbótatíma þegar Breiðablik fær vítaspyrnu eftir að brotið er á Kristjönu Sigurdz innan vítateigs. Natasha Anasi, fyrrum leikmaður Keflavíkur, stígur á vítapunktinn til að reyna að tryggja Breiðablik stig úr leiknum en Samantha Murphy gerir sér lítið fyrir og ver vítaspyrnuna sem annars var nokkuð góð út við stöng. Murphy kórónaði þar með frábæra frammistöðu sína og réttilega tolleruð í leikslok.

Af hverju vann Keflavík?

Samantha Murphy, markvörður Keflavíkur, var frábær. Hún réð við allt sem Blikar buðu upp á og meira en það. Að öðrum ólöstuðum þá var hún ástæðan fyrir sigri Keflavíkur í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Murphy átti frammistöðu sem erfitt verður að toppa á þessu tímabili. Hvort sem það verður hún sjálf eða einhver annar leikmaður í deildinni.

Ana Santos var einnig öflug í liði Keflavíkur en Blikar áttu mjög erfitt með að ná boltanum af henni þegar hún var að leika listir sínar af brasilískum sið.

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Blika, var best í liði Breiðabliks. Flestar ógnir gestanna í kvöld komu af hægri vægnum og yfirleitt eftir undirbúning Ástu.

Hvað gerist næst?

Keflavík fer næst í heimsókn til Vals á Hlíðarenda næsta mánudag. Blikar taka á móti Stjörnunni á Kópavogsvelli sama dag.

„Tvær eða þrjár heimsklassa markvörslur“

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks.Breiðablik

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með frammistöðu síns liðs en lukkan var einfaldlega ekki með þeim í liði í dag.

„Þetta var ekki okkar dagur. Stelpurnar lögðu samt allt í þetta og skildu allt eftir á vellinum. Við héldum boltanum vel og sköpuðum fullt af dauðafærum, undir eðlilegum kringumstæðum þá á þessi frammistaða að gefa sigur en í dag datt þetta ekki. Hún [Murphy] átti leik lífsins í markinu og því fór sem fór,“ sagði Ásmundur í viðtali við Vísi eftir leik.

„Þetta er auðvitað formúla sem hefur marg oft sést. Við töluðum um það fyrir leikinn að ef okkur gengi illa að skora þá myndu andstæðingar okkar þéttast og vaxa ás megin og þá yrði þetta erfiður leikur, við vissum það alveg fyrir leikinn.“

Murphy átti eins og áður var nefnt frábæran leik í marki Keflavíkur og Ásmundur tók undir það.

„Í sumum færum þá skutum við kannski beint á hana en í öðrum færum þá er hún að verja virkilega vel. Það eru tvær eða þrjár heimsklassa markvörslur í þessum leik hjá henni,“ svaraði Ásmundur aðspurður út leik Murphy.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Stjörnunni. Ásmundur telur deildina jafnari en áður og krefst þess að liðið sitt haldi fókus á sínum eigin leik.

„Það hefur verið rætt að deildin er kannski aðeins jafnari og að ýmislegt gæti gerst í þessu. Það sýnir sig á úrslitunum í dag og í gær að hugsanlega er það þannig. Við þurfum annars bara að setja fókus á okkur og reyna að halda áfram góðri frammistöðu og góðri baráttu og svo að nýta færin okkar,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira