Enski boltinn

Guardiola: Manchester City mun ekki kikna undan pressunni frá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola segir að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að Manchester City liðið þoli ekki pressuna.
Pep Guardiola segir að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að Manchester City liðið þoli ekki pressuna. Getty/Tom Flathers

Manchester City heldur áfram eins stigs forskoti á Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir úrslitin um helgina. Knattspyrnustjóri liðsins hefur ekki áhyggjur af því að hans menn þoli ekki pressuna.

Liverpool komst um tíma á toppinn eftir nauman sigur á Newcastle en seinna um daginn þá endurheimtu City menn toppsætið með sannfærandi 4-0 sigri á Leeds United.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að hans menn hafi unnið of marga titla til að fara á taugum á lokasprettinum.

„Við höfum verið mörgum sinnum í þessari stöðu. Þetta snýst ekki um einhverja pressu. Þetta er einfalt. Við verðum að vinna alla okkar leiki til að verða meistarar. Ef við gerum það ekki þá verður Liverpool meistari,“ sagði Pep Guardiola sem segir að lið hans muni ekki kikna undan pressunni frá Liverpool.

„Það er ekki erfitt að skilgreina þessa pressu. Þeir spila á undan okkur og munu vinna alla leikina sína. Við höfum lengi búist við því,“ sagði Guardiola.

„Við verðum því að vinna alla leiki okkar. Ef það gerist þá óska þeir okkur til hamingju. Ef það gerist ekki þá munum við óska þeim til hamingju,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×