Umfjöllun og viðtöl: KR 0-4 Keflavík | Öflugur útisigur hjá Keflvíkingum

Dagur Lárusson skrifar
visir-img
Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Nýliðar KR steinlágu fyrir Keflavík í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld en lokatölur leiksins voru 0-4.

Gestirnir byrjuðu leikinn mikið betur og áttu nokkur færi áður en fyrsta markið leit dagsins ljós en þær Ana Santos og Dröfn Einarsdóttir voru allt í öllu í sóknarleiknum. Fyrsta mark leiksins kom á 35. mínútu en þá fékk Dröfn góða sendingu inn fyrir vörn KR-inga og gaf boltann inn á teig á Ana Santos sem tók við boltanum, sneri á einn varnarmann og smellti boltanum í netið.

Annað mark leiksins kom síðan ekki nema einni mínútu seinna en þá var það Sigurrós sem lék listir sína upp vinstri kantinn áður en hún gaf fyrir á Ana Santos sem skallaði boltann í netið, staðan orðin 0-2 og þannig var hún í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum voru það áfram gestirnir sem stýrðu ferðinni en þriðja mark þeirra kom strax á 47. mínútu en það var nánast alveg eins og fyrsta mark leiksins. Dröfn fékk boltann inn fyrir vörn KR á hægri kantinum og sá að Ana Santos var ein á auðum sjó og því renndi hún boltanum á hana og Ana kláraði vel. Staðan orðin 0-3 og Ana Santos búin að fullkomna þrennu sína.

Síðasta markið kom síðan á 78. mínútu en þá var komið að Dröfn að skora. Hún fékk boltann úr innkasti við hliðarlínuna, tók boltann niður og fór fram hjá nokkrum varnarmönnum áður en hún átti skot í varnarmann og þaðan fór boltinn í netið. Lokatölur leiksins 0-4 og Keflavík byrjar deildina því af miklum krafti.

Af hverju vann Keflavík?

Það var í raun ljóst strax frá fyrstu mínútu að Keflavík var betur spilandi lið. Ana Santos var að fá boltann trekk í trekk á milli miðju og varnar og var að skapa ótal vandræði fyrir KR. KR átti ekki eitt opið færi í leiknum, aðeins nokkur skot utan af velli.

Hverjar stóðu upp úr?

Það fer ekkert á milli mála hver var maður leiksins, það var Ana Santos með sín þrjú mörk og frábæru frammistöðu í sínum fyrsta deildarleik fyrir Keflavík. Dröfn Einarsdóttir var einnig frábær á hægri kantinum hjá Keflavík með síðan tvær stoðsendingar og eitt mark.

Hvað fór illa?

KR var í miklum vandræðum með að ráða við Ana Santos, hún náði alltaf að finna sér pláss á milli varnar og miðju og fann Dröfn á hægri kantinum mjög oft í leiknum.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir beggja liða eru eftir viku, KR fer í Garðabæinn og mætir Stjörnunni á meðan Keflavík tekur á móti Breiðablik.

„Var stressuð en síðan gekk allt upp“

Ana Paula Silva Santos er leikmaður Keflavíkur.Keflavík

„Ég mjög ánægð með minn fyrsta leik fyrir Keflavík, það gekk eiginlega allt upp,“ byrjaði Ana Santos, leikmaður Keflavíkur, að segja eftir leik.

„Nýr deild, nýtt land, nýtt lið, nýir samherjar þannig ég var smá stressuð fyrir leikinn, maður veit aldrei hvort maður muni passa við liðið en síðan gekk þetta allt upp,“ hélt Ana áfram.

„Ég er mjög ánægð með að hafa skorað þrjú mörk og mjög ánægð með það að við höfum unnið þannig ég get ekki kvartað undan neinu.“

„En auðvitað er þetta bara fyrsti leikurinn á tímabilinu þannig það er mikið sem við þurfum að laga og við munum fara yfir það eftir leik.“

Ana var allt í öllu í sóknarleik Keflavíkur og var mikið að fá boltann á milli varnar og miðju. Ana segir að það hafi verið planið fyrir leikinn.

„Já það var planið fyrir leikinn. Ég vildi fá boltann á þessu svæði og finna til dæmis Dröfn í svæði og það virkaði vel enda er það ekkert rosalega erfitt að finna hana í svæði, hún er svo fljót,“ endaði Ana Santos að segja.

„Sömu mistökin aftur og aftur“

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR.vísir

„Það vantaði rosalega mikið í okkar spilamennsku en aðallega var það vörnin, við vorum að gera sömu mistökin aftur og aftur,“ byrjaði Jóhannes Karl, þjálfari KR, að segja eftir leik.

„Við gefum í rauninni þrisvar sinnum alveg sama markið, þau voru öll keimlík, þannig við vorum ekki að stíga rétt niður í vörninni og vorum ekki að ná að loka á Ana og Dröfn. Þær eru með mjög sterka sóknarmenn og við vorum ekki að höndla þá vel,“ hélt Jóhannes áfram.

„En burt séð frá því þá vantaði annað líka, við vorum til dæmis að tapa allt of mörgum boltum á miðsvæðinu og þær refsuðu okkur fyrir það og sóknarlega vorum við ekki að skapa neitt.“

Jóhannes var sammála því að Ana var að fá allt of mikið svæði á miðjunni.

„Já, við vorum að gefa henni of mikið svæði og við vorum ekki að pressa rétt á miðjunni. En auðvitað eru einhverjir jákvæðir punktar sem við tökum úr leiknum, við verðum að finna þá og gera betur í næsta leik,“ endaði Jóhannes Karl að segja eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.