Íslenski boltinn

„Ekki hægt að biðja um meira en mark og sigur í fyrsta deildarleik“

Andri Már Eggertsson skrifar
Máni Austmann skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í kvöld.
Máni Austmann skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í kvöld. Freyr Árnason

FH vann Fram í sex marka leik. Máni Austmann Hilmarsson, leikmaður FH, spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið og skoraði þriðja mark FH. 

„Það er geggjað að vinna á heimavelli. Ég var að spila minn fyrsta deildarleik fyrir FH náði að skora mark og get einfaldlega ekki beðið um meira,“ sagði Máni Austmann eftir 4-2 sigur á Fram. 

Máni kom inn á í hálfleik þar sem FH var marki undir og var Máni ánægður með margt í leik FH. 

„Við vorum marki undir þegar ég kom inn á. Fyrri hálfleikur var hægur en við gerðum vel í seinni hálfleik sem skilaði þremur mörkum.“

Máni vissi ekki hvað Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, sagði í hálfleik þar sem hann var ekki inn í klefa. 

Máni Austmann skoraði þriðja mark FH og héldu margir að það yrði sigurmark leiksins en Vuk Oskar Dimitrijevic gerði fjórða markið í uppbótatíma og gat Máni samglaðst honum. 

„Ég og Vuk erum svo góðir vinir þannig hann stal ekki neinu sigurmarki af mér. Það gekk ekkert alltof vel í fyrra hjá honum þannig ég var ánægður með að hann sé kominn á blað.“

„Það er erfitt að spila gegn nýliðum sérstaklega að lenda undir þar sem þeir falla langt niður og það var erfitt að finna millisvæðin en við gerðum það samt vel og fengum fullt af færum sem skilaði sér í mörkum,“ sagði Máni Austmann að lokum.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×