Enski boltinn

„Erum það lið sem hefur spilað flestar mínútur í Evrópu“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vel sáttur.
Vel sáttur. vísir/Getty

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, var í skýjunum með 2-0 sigur liðsins á Crystal Palace í undanúrslitum enska bikarsins á Wembley í dag.

Mikið álag hefur verið á hans liði í vetur og með tilliti til þess var hann sérstaklega ánægður með frammistöðuna.

„Þetta var ekki auðvelt því við höfum spilað þrjá leiki í þremur mismunandi keppnum á síðustu dögum. Það er ekki alltaf auðvelt og þetta hefur reynt mikið á okkur líkamlega. Ég held að við séum það lið sem hefur spilað flestar mínútur í Evrópu; það reynir líka á andlega.“

„Þetta var mjög flott og þroskuð frammistaða hjá okkur. Við héldum aftur af skyndisóknunum þeirra,“ sagði Tuchel.

Ruben Loftus-Cheek sá um að koma Chelsea á bragðið en hann hóf leik á varamannabekknum og kom inná eftir tæplega hálftíma leik þegar Mateo Kovacic varð að fara af velli.

„Hann (Loftus-Cheek) var mjög, mjög öflugur í leikjunum gegn Southampton og Real Madrid. Hann átti skilið að byrja en við vildum stilla svona upp. Við vissum að Ruben myndi koma með framlag af bekknum og ég er mjög ánægður með hann.“

„Hann hefur falið hæfileika sína stóran hluta ferilsins. Hann hefur mjög mikla hæfileika en fyrir hann snýst þetta um að taka eitt skref í einu og öðlast sjálfstraust,“ sagði Tuchel um hinn 26 ára gamla Ruben Loftus-Cheek sem hefur verið að gera sig gildandi á undanförnum vikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×