Enski boltinn

Sean Dyche rekinn frá Burnley

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rekinn.
Rekinn. Clive Brunskill/Getty Images

Óvænt tíðindi berast frá Turf Moor í Burnley þar sem enski knattspyrnustjórinn Sean Dyche hefur verið rekinn úr starfi sínu hjá enska úrvalsdeildarliðinu Burnley.

Hinn fimmtugi Dyche kveður nú Burnley eftir tæplega tíu ára starf en hann hefur unnið þrekvirki hjá félaginu og þótt sýna ótrúlegan stöðugleika með því að halda liðinu uppi í ensku úrvalsdeildinni undanfarin sex ár.

Burnley komst fyrst upp í ensku úrvalsdeildina árið 2009 en Dyche tók við stjórnartaumum hjá félaginu haustið 2012. Þá hafði liðið fallið aftur niður í B-deildina en Dyche stýrði því upp í úrvalsdeildina á sinni fyrstu leiktíð.

Burnley féll aftur niður í B-deildina en Dyche kom liðinu svo beint upp aftur og hefur Burnley verið í ensku úrvalsdeildinni sleitulaust frá árinu 2016.

Nú blasir fall við félaginu en liðið er fjórum stigum frá öruggu sæti þegar átta leikir eru eftir.

Jóhann Berg Guðmundsson er á mála hjá Burnley og hefur verið í lykilhlutverki hjá félaginu undir stjórn Dyche en hefur lítið spilað á yfirstandandi leiktíð vegna meiðsla.

Í tilkynningu Burnley segir að þjálfarateymi U23 ára liðs félagsins auk fyrirliðans, Ben Mee, hafi verið beðin um að stýra liðinu þar til nýr stjóri verður ráðinn en Burnley heimsækir West Ham í ensku úrvalsdeildinni á páskadag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×