Frost verður á bilinu null til sjö stig en sums staðar frostlaust suðvestantil yfir daginn.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að spá morgundagsins sé á heldur meira flökti. Þá geri sumar spár ráð fyrir að úrkomubakki sem verði skammt vestur af landinu, nái inn á land og gæti því snjóað staðbundið á Faxaflóasvæðinu sem og á Breiðafirði. Aðrar spár geri hins vegar ráð fyrir að bakkinn nái nánast ekkert inn á land.
„Ágætt er að hafa í huga að þótt þetta misræmi sé í spánum þá skeikar þetta mjög litlu þegar haft er í huga að veðurlíkönin sem notuð eru við útreikninga spáa eru býsna gróf og háupplausnarlíkönin nota niðurstöður þeirra við sína útreikninga, svo að 20-30 km færsla á úrkomubökkum er í raun alger minniháttar tilfærsla, en þegar úrkomubakkarnir eru eins nálægt landi og raun ber, þá getur það haft mikil staðbundin áhrif hjá okkur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Austlæg átt, 3-8 m/s, en suðaustan 8-13 suðvestan og vestanlands. Skýjað með köflum en líkur á dálítilli úrkomu um landið suðvestanvert. Frost 0 til 7 stig en frostlaust við suðvesturströndina.
Á sunnudag: Austlæg átt, 5-13 m/s. Skýjað með köflum eða bjartviðri en þykknar upp við suðurströndina um kvöldið. Frost yfirleitt 0 til 8 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Austan og norðaustan 5-10, en 10-15 m/s syðst. Bjartviðri um landið vestanvert annars skýjað og dálítil úrkoma við suður- og suðausturströndina. Allvíða frostlaust syðst, annars 0 til 7 stiga frost.
Á miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir áframhaldandi austlæga átt, allhvöss syðst, en annars mun hægari. Dálítil él syðst, annars yfirleitt þurrt og bjart. Hiti breytist lítið.