Enski boltinn

Úkraínskur flótta­­maður æfir með Man City: Bróðir hans berst við Rússa heima fyrir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrii Kravchuk æfir nú með U-23 ára liði Manchester City þökk sé landa hans Oleksandr Zinchenko.
Andrii Kravchuk æfir nú með U-23 ára liði Manchester City þökk sé landa hans Oleksandr Zinchenko. BBC Sport

Úkraínskur flóttamaður hefur fengið leyfi til að æfa með U-23 ára liði Manchester City. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Hinn 23 ára gamli Andrii Kravchuk var í æfingaferð í Tyrklandi með félagsliði sínu, hinu rússneska Torpedo Moskvu, þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst. Kravchuk rifti samningi sínum við liðið hið snarasta og hefur nú fengið leyfi til að æfa með U-23 ára liði Manchester City.

Oleksandr Zinchenko, landi hans og fyrrum samherji í unglingaliði Shakhtar Donetsk, hjálpaði Kravchuk að komast til Manchester og sá til þess að hann gæti æft með U-23 ára liði félagsins.

Í viðtali á vef breska ríkisútvarpsins segir Kravchuk það hafa verið mjög óþægilegt að vera á mála hjá rússnesku félagi eftir innrás Rússa.

„Ég var að spila í landi sem réðst inn í heimaland mitt. Það eina í stöðunni var að yfirgefa félagið og Rússland. Fólk í Úkraínu hefði aldrei fyrirgefið mér hefði ég haldið áfram að spila í Moskvu.“

Fjölskylda Kravchuk er sem stendur enn í Úkraínu og bróðir hans Aleks er hluti af herliðinu sem hefur barist við Rússa allt síðan innrásin hófst.

„Ég segi honum á hverjum degi hversu stoltur ég er. Ekki aðeins því hann er að verja fjölskyldu okkar heldur er hann að velja landið allt og úkraínsku þjóðina. Hann fer ekki fet og gefst ekki upp,“ sagði Kravchuk um bróðir sinn.

„Ég hef miklar áhyggjur. Ég er í ýmsum hópspjöllum í símanum mínum og er alltaf að fá tilkynningar um sprengjuviðvaranir. Alltaf þegar ein slík kemur upp þá verð ég mjög áhyggjufullur. Maður hugsar alltaf um að fjölskylda manns sé í lífshættu.“

Kravchuk er ævinlega þakklátur Manchester City sem og landa sínum Zinchenko.

„Síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög erfiðir en að vera kominn aftur út á völl gerir mjög mikið fyrir mig,“ sagði hinn 23 ára gamli Úkraínumaður að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×