Erlent

Saka Rússa form­lega um stríðs­glæpi: „Að ráðast vís­vitandi á ó­breytta borgara er stríðs­glæpur“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Bæði Anthony Blinken utanríkisráðherra og Joe Biden Bandaríkjaforseti höfðu lýst því fyrr í vikunni að það væri þeirra persónulega skoðun að Rússar hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu. 
Bæði Anthony Blinken utanríkisráðherra og Joe Biden Bandaríkjaforseti höfðu lýst því fyrr í vikunni að það væri þeirra persónulega skoðun að Rússar hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu.  Getty/Kent Nishimura

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir bandarísk stjórnvöld hafa formlega lýst því yfir að rússneskar hersveitir hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu með því að ráðast á óbreytta borgara. Hann segir skýr sönnunargögn um að árásir Rússa hafi valdið dauða og eyðileggingu um alla Úkraínu. 

Að sögn Blinkens var ákveðið að saka Rússa formlega um stríðsglæpi eftir að stjórnvöld höfðu farið yfir öll þau gögn sem standa til boða en að þeirra mati eru skýr sönnunargögn um glæpi Rússa.

„Frá því að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hóf sitt tilefnislausa og óréttláta stríð hefur hann leyst úr læðingi linnulaust ofbeldi sem hefur valdið dauða og eyðileggingu um alla Úkraínu,“ segir Blinken í yfirlýsingu um málið.

Áður höfðu Joe Biden Bandaríkjaforseti, Wendy Sherman aðstoðarutanríkisráðherra, og Blinken sjálfur gefið það út að það væri þeirra persónulega skoðun að Rússar hefðu gerst sekir um stríðsglæpi.

„Í síðustu viku tók ég undir yfirlýsingu Bidens forseta, út frá þeim fjölda frásagna og mynda af eyðileggingunni og þjáningunni sem við höfum öll séð, að hersveitir Pútíns hafi gerst sekir um stríðsglæpi í Úkraínu. Ég benti á að það að ráðast vísvitandi á óbreytta borgara er stríðsglæpur,“ segir Blinken.

Hann bendir á að rússneskar hersveitir hafi skotið á íbúðarhúsnæði, skóla, sjúkrahús, bifreiðar í eigu óbreyttra borgara, verslunarmiðstöðvar og sjúkrabíla með þeim afleiðingum að þúsundir manna hafa látist eða særst.

Hann vísaði þar til að mynda til árásarinnar á fæðingardeild sjúkrahúss í Mariupol og árás á leikhús í borginni, þrátt fyrir að fyrir utan hafi verið skrifað með skýrum stöfum „börn“ á rússnesku. Hann líkti árásum Rússa við árásir á Grozny í Tékklandi og Aleppo í Sýrlandi þar sem óbreyttir borgarar urðu fyrir árásum.

„Með hverjum degi sem að hersveitir Rússa halda áfram með hrottalegar árásir sínar heldur fjöldi saklausra borgara sem látast og særast, þar á meðal konur og börn, áfram að hækka,“ segir Blinken. Hann segir árásirnar hafa hneykslað heiminn og vísaði til ummæla Vólódímírs Selenskí Úkraínuforseta um að hersveitir hafi „baðað Úkraínumenn blóði og tárum.“

Blinken sagði þó það í höndum dómsyfirvalda að dæma í málinu en að Bandaríkin munu áfram, ásamt öðrum bandamönnum, fylgjast með gangi mála og upplýsa um hvers kyns glæpi sem Rússar lunna að gerast sekir um.


Tengdar fréttir

Úkraínuforseti kallar rússneska hermenn áróðursþræla

Forseti Úkraínu hvetur Vesturlönd til að herða enn á refsiaðgerðum sínum og auka stuðning þeirra við Úkraínu. Hann kallar rússneska hermenn þræla sem skjóti að frjálsu fólki í borgum sem þeir hafi hertekið. Barist er á götum Mariupol þar sem talið er að hersveitir Téténa leggi Rússum lið.

Segir ekkert eftir af Mariu­pol og kallar eftir að­gerðum

Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði ítalska þingið í dag en hann sagði ekkert eftir af borginni Mariupol, sem Rússar hafa setið um í þrjár vikur. Selenskí sagði rússneskar hersveitir hafa varpað tveimur stórum sprengjum á borgina í dag en mannfall eftir þær árásir liggur ekki fyrir. Að sögn Selenskí vilja rússneskar hersveitir aðeins skilja borgina eftir í rústum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×