Erlent

Viðtal við konu frá Maríupól: Sátu á gólfinu og báðu bænir í sprengjuregni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rafmagnslaust hefur verið í Maríupól síðan í byrjun mars. Ganna flúði borgina með foreldrum sínum, systur og mági.
Rafmagnslaust hefur verið í Maríupól síðan í byrjun mars. Ganna flúði borgina með foreldrum sínum, systur og mági. Ganna Kotelnikova

Kona sem flúði Maríupól í Úkraínu, þar sem fólk býr við hryllilegar aðstæður eftir linnulausar árásir Rússa, segir skelfilegt að horfa upp á heimaborg sína sprengda í loft upp. Hún þurfti að sjá um alla matseld við opinn eld undir berum himni eftir að rafmagnslaust varð í borginni.

Ganna Kotelnikova hefur búið í Maríupól alla sína ævi. Hún flúði borgina, ásamt foreldrum sínum, systur, mági og tveimur hundum, þegar flóttaleið opnaðist loks út úr borginni í síðustu viku. Hún lýsir því í samtali við fréttastofu að frá 2. mars hafi Maríupól verið rafmagns- vatns- og sambandslaus - og á endanum hafi gasið farið líka. Fólk hafi því þurft að safna eldiviði til að útbúa mat, sem var af skornum skammti.

„Það var mjög erfitt að finna eldivið í borginni. Hvar sem hægt var að finna eldivið, jafnvel litlu sprekin af trjánum, þau voru notuð til að gera eld til matseldar. Við notuðum allan við sem við komumst í,“ segir Ganna.

Matur lagaður við opinn eld úti á götu í Maríupól.Ganna Kotelnikova

Í stöðugri hættu

Það sé ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig það hafi verið að horfa á borgina sína sprengda í loft upp.

„Við vorum augljóslega í stöðugri hættu. Við elduðum úti yfir opnum eldi. Smám saman lærðum við muninn á hljóðunum, þannig að þegar flugvél kom nálægt til að sprengja hlupum við og leituðum skjóls. Skildum allt eftir úti,“ segir Ganna.

Eftir linnulausar árásir Rússa leituðu Ganna og fjölskylda skjóls í húsi við leikhúsið í Maríupól, sem var gjöreyðilagt í loftárás 16. mars.

„Aðstæðurnar voru mjög skelfilegar. Við sátum á gólfinu og báðum bænir. Og allt lék á reiðiskjálfi.“

Áfram í Úkraínu

Vinir Gönnu urðu eftir í Maríupól og hún hefur engu sambandi náð við þau. Sjálf eru Ganna og fjölskylda nú komin til borgarinnar Dnipro, þar sem ástandið er betra.

„Nokkuð örugg. Á hverjum degi í Dnipro, borginni sem við erum í núna, heyrum við í loftvarnarflautum.“

Foreldrar Hönnu eru 83 ára og 88 ára og hún segir það ekki raunhæfan möguleika fyrir þau að yfirgefa landið. Fjölskyldan verði áfram í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×