Erlent

Hóta að draga þá sem ekki gefast upp í Maríupól fyrir herdómstól

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskir hermenn fyrir utan Maríupól í vikunni.
Rússneskir hermenn fyrir utan Maríupól í vikunni. Getty/Anadolu Agency

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sendi í kvöld út yfirlýsingu þar sem verjendum Maríupól var gert að leggja niður vopn og yfirgefa borgina. Þeir sem geri það ekki verði dregnir fyrir herdómstól í Rússlandi.

Rússar segja ástandið í borginni sem þeir hafa setið um í rúmar þrjár vikur og gert linnulausar loft- og stórskotaliðsárásir á vera hörmulegt en saka Úkraínumenn sjálfa um að hafa valdið því.

Óhætt er að segja að margar fullyrðingar í yfirlýsingu ráðuneytisins séu ósannar og jafnvel undarlegar. Í einni fullyrðingunni segir að her Úkraínu haldi fjórum og hálfri milljón manna í gíslingu í Kænugarði, Kharkív og öðrum borgum.

Ráðuneytið sakar Úkraínumenn til að mynda um að hafa sjálfir sprengt upp leikskóla, tvo skóla, sjúkrahús og leikhús. Rússar hafa áður sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð á þessum árásum, sem þeir eru sjálfir sakaðir um.

Ráðamenn Rússlands hefur verið margsaga um árásina á sjúkrahúsið en áður en Úkraínumenn voru sjálfir sakaðir um að hafa sprengt það upp sagði utanríkisráðuneytið að nasistar hefðu verið í sjúkrahúsinu og þess vegna hefðu Rússar gert loftárás á það.

Rússar hafa einnig logið um að árásin hafi verið sviðsett og að um leikara hafi verið að ræða.

Í yfirlýsingunni segir að allir þeir sem leggi niður vopn muni fá að fara til vesturs á yfirráðasvæði yfirvalda í Kænugarði. Fólk í borginni megi ráða hvort það fari til vesturs eða austurs til Rússlands.

Vert er að benda á að embættismenn í Maríupól hafa sakað Rússa um að ræna fólki frá Maríupól og flytja þau til Rússlands gegn vilja þeirra.

Harðir bardagar hafa geysað á götum Maríupól undanfarna daga. Hér má sjá myndband af þeim bardögum sem birt var í morgun. Það sýnir úkraínska hermenn verjast sókn Rússa.

Þá segir einnig í yfirlýsingunni að „þjóðernissinnar“ og „glæpamenn“ hafi meinað almenningi að yfirgefa borgina. Reuters vitnar í blaðamannafund í kvöld þar sem rússneskur herforingi sakaði áðurnefnda hópa, auk „nasista“ að hafa framið fjöldamorð í Maríupól, án þess þó að færa fyrir því nokkrar sannanir.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í gær að umsátrið um Maríupól væri grimmilegur stríðsglæpur og heimurinn muni minnast ódæða Rússa þar í margar aldir.

Úkraínsk kona sem búsett er hér á landi segir ástandið í Maríupól verra en Vesturlandabúar geri sér grein fyrir. Íbúðin hennar var sprengd upp í vikunni og hún hefur ekki heyrt í foreldrum sínum í sextán daga.

Blaðamenn AP fréttaveitunnar ræddu í dag við fólk sem tókst að flýja frá Maríupól en þau segja borgina hafa svo gott sem verið jafnaða við jörðu. Lík hafi verið á víð og dreif og fólk hafi þurft að bræða snjó til að verða sér út um drykkjarvatn.

Þau hafi sömuleiðis verið án rafmagns og samskipta við umheiminn.

Fólkið segir sömuleiðis að rússneskir hermenn hafi lagt til að þau færu til Rússlands eða Krímskaga í stað þess að flýja vestur. Það hafi þeim þótt fáránlegt og sérstaklega í ljósi þess að Rússar hafi varpað sprengjum á þau í nokkrar vikur og sprengt upp áðurnefnt leikhús og skóla þar sem fjöldi fólks og þar á meðal börn höfðu leitað sér skjóls frá sprengjuregninu. 

Aðalræðismaður Grikklands í Úkraínu varð síðasti erindreki á vegum landa Evrópusambandsins til þess að yfirgefa Maríupól. Hann segist vona að enginn verði vitni að jafn miklum hryllingi og hann fékk þar að kynnast.


Tengdar fréttir

Ungt fólk streymir frá Rússlandi

Ungt fólk streymir frá Rússlandi í tuga þúsunda tali. Stór hluti þessa hóps er menntaður og hefur unnið í tæknigeira Rússlands. Mörg þeirra hafa farið til Armeníu.

Segja Úkraínumenn hafa stöðvað Rússa

Úkraínumenn eru sagðir hafa stöðvað sókn Rússa og er útlit fyrir langvarandi átök sem einkennast af þrátefli með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu.

Vaktin: Krefjast upp­gjafar Maríu­pól

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir umsátur Rússa um Maríupól og árásir þeirra á borgina „hrylling sem verður minnst um ókomnar aldir“. Rússar hafa lagt til flóttaleiðir frá borginni á morgun. Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×