Erlent

186 lík fundist í Petrópolis

Eiður Þór Árnason skrifar
Björgunaraðilar voru enn að störfum í borginni í gær.
Björgunaraðilar voru enn að störfum í borginni í gær. AP/Silvia Izquierdo

Viku eftir að flóð og skriðuföll lögðu brasilísku borgina Petrópolis í rúst er talið að minnst 186 hafi farist í hamförunum. 69 einstaklinga er enn saknað að sögn lögreglu. Sú tala hefur farið lækkandi á seinustu dögum samhliða því að kennsl hafa verið borin á fleiri lík og aðrir fundið ástvini sína heila á húfi.

France24 greinir frá þessu og hefur eftir brasilískum yfirvöldum að lík 113 kvenna og 73 karla hafi fundist á svæðinu. Þar á meðal séu 33 börn. Yfir 800 manns sem þurftu að yfirgefa heimili staðsett á hættusvæðum dvelja enn í neyðarskýlum.

Petrópolis er vinsæll ferðamannastaður staðsettur í fjallendi um 60 kílómetra norður af Rio de Janeiro. Um 300 þúsund íbúar fengu þann 15. febrúar meiri úrkomu á nokkrum klukkustundum en fellur að jafnaði allan febrúarmánuð.

Fjöldi heimila urðu fyrir miklum skemmdum.Ap/Silvia Izquierdo

Aurskriður lögðu tugi heimila í rúst og flóð rifu tré upp með rótum, veltu bílum og þöktu götur borgarinnar með þykkri leðju.

Neyðarástandi var lýst yfir í borginni og voru á annað hundrað hermenn auk sérþjálfaðra leitarteyma sendir á svæðið. Staðsetning borgarinnar gerir það að verkum að skriðuföll hafa ítrekað leikið íbúa grátt. Þegar verst lét árið 2011 fórust yfir 900 manns í Petrópolis og nærliggjandi borgum vegna aurskriða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×