Erlent

Rannsaka salmonellusýkingu í Evrópu - hópsýking kom upp á Íslandi á sama tíma

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Grunur leikur á að salmonellusmit í Evrópu megi rekja til spænskra eggjabúa. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Grunur leikur á að salmonellusmit í Evrópu megi rekja til spænskra eggjabúa. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty

Grunur leikur á að uppruna hundruða salmonellusýkinga á meginlandi Evrópu megi rekja til þriggja eggjabúa á Spáni. Umfangsmikil rannsókn stendur yfir, en tilkynnt hefur verið um smit í sex löndum. Hópsýking á salmonellu kom upp á Íslandi í fyrrahaust, á sama tíma og fyrstu tilfellanna varð vart á meginlandinu.

Á undanförnum mánuðum hafa 272 einstaklingar víða um Evrópu veikst af salmonellubakteríunni. 25 þeirra hafa verið lagðir inn á sjúkrahús og tveir eru látnir. Flestir hinna veiku eru frá Frakklandi, en fólk hefur einnig sýkst af bakteríunni á Spáni, í Hollandi, Bretlandi, Noregi og Danmörku. Í fréttabréfi sóttvarnalæknis á Íslandi í fyrrahaust kom fram að salmonelluhópsýking hefði komið upp á Íslandi í fyrrahaust, um svipað leyti og tilkynnt var um fyrstu sýkingarnar á meginlandi Evrópu. Í fréttum fjölmiðla hér á Spáni af yfirstandandi rannsókn er þó hvergi getið um hin íslensku smit.

Böndin berast að Spáni

Flest smitanna eru skráð síðsumars og í fyrrahaust, en salmonellabakterían þrífst best í góðum sumarhita. Böndin berast nú að þremur eggjabúum hér á Spáni, en rannsókn á vegum Sóttvarnarstofnunar Evrópu og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu bendir til þess að bakteríuna sé að finna á fleiri eggjabúum innan og utan Spánar. Mikil hætta er talin á að smitum fari fjölgandi á næstu mánuðum. Stofnanirnar telja brýnt að stjórnvöld auki eftirlit með salmonellusmitum vegna hættunnar á að fleiri eggjabú eigi í hlut.

Fjölmiðlar hér syðra hafa vakið athygli á því að þrátt fyrir þessa víðtæku rannsókn og vísbendingar um að spænsk eggjabú eigi í hlut hafi Matvælastofnun Spánar ekki séð neina ástæðu til að setja inn fréttir eða upplýsingur um þessi smit á heimasíðu sína.

Þrjú ár frá síðustu hópsýkingu

Árið 2019 kom upp víðtækt salmonellusmit í um það bil 10 Evrópulöndum. Nær þúsund manns smituðust þá og örverufræðileg tengsl benda til sama uppruna smita nú og þá.

Salmonella er ein algengasta orsök sýkingar í meltingarfærum í Evrópu. Frá 2007 til 2020 eru skráð meira en hálf milljón tilfella salmonellusýkinga í álfunni, og rúmlega 500 manns hafa látist vegna hennar. Engu að síður hefur dregið mjög úr smitum á síðustu árum vegna aukins eftirlits. Algengasta smitleiðin er í gegnum egg sem eru lítt eða ekki elduð, en bakterían drepst við 70 gráðu hita. Helstu einkenni salmonellusýkingar eru hiti, niðurgangur, kviðverkir, ógleði og uppköst.


Tengdar fréttir

Salmonellu-hóp­smit í septem­ber

Aukning varð á tilkynningum til sóttvarnarlæknis um salmonellusýkingar í septembermánuði. Grunur vaknaði um hópsmit en á nokkrum vikum greindust þrettán einstaklingar með sömu tegund af bakteríunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×