Íslenski boltinn

Ísak Berg­mann sá um Blika: Sjáðu mörkin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. FCK.dk

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvívegis er FC Kaupmannahöfn lagði Breiðablik í markaleik á æfingamótinu Atlantic Cup sem nú fer fram í Portúgal. Lokatölur 4-3 Kaupmannahafnarliðinu í vil.

Breiðablik og FC Kaupmannahöfn mættust í þriðja leik liðanna á æfingamótinu Atlantic Cup. Kópavogsbúar hafa staðið sig með prýði til þessa, sigur vannst gegn B-liði Brentford og þá vann Breiðablik vítaspyrnukeppni gegn Midtjylland eftir að staðan var 3-3 að loknum venjulegum leiktíma.

Breiðablik lenti 0-3 undir gegn Midtjylland en hóf leik dagsins mun betur, of vel ef eitthvað er. Gísli Eyjólfsson kom Blikum yfir með góðu skoti fyrir utan teig og Höskuldur Gunnlaugsson tvöfaldaði forystuna er rúmur hálftími var liðinn, staðan 2-0 í hálfleik.

Um miðbik síðari hálfleik tók FCK öll völd á vellinum. Mamaoudou Karamoko minnkaði muninn á 67. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði Oscar Jojlund metin. Þá var komið að þætti íslenska landsliðsmannsins Ísaks Bergmanns.

Á 74. mínútu kom Skagamaðurinn danska liðinu í 3-2 og hann gerði svo í raun út um leikinn á 83. mínútu með öðru marki sínu og fjórða marki Kaupmannahafnarliðsins. Það mark var einkar glæsilegt en Ísak Bergmann skoraði þá beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig.

Kristinn Steindórsson minnkaði muninn undir lok leiks og þar við sat, lokatölur 4-3 FCK í vil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.