Erlent

Lafhræddir Demókratar vilja drífa sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Útlit er fyrir baráttu milli þeirra Joe Biden og Mitch McConnell á næstu mánuðum.
Útlit er fyrir baráttu milli þeirra Joe Biden og Mitch McConnell á næstu mánuðum. AP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, vill tilnefna nýjan hæstaréttardómara eins fljótt og auðið er og koma tilnefningu hennar fljótt í gegnum öldungadeildina. Þar á bæ hafa Repúblikanar þegar gefið í skyn að þeir vilji draga ferlið á langinn.

Tilkynnt var í vikunni að hæstaréttardómarinn Stephen Breyer muni láta af embætti í júní. Biden hefur heitið því að tilnefnda svarta konu til embættisins í stað Breyer. Þá segist Biden ætla að opinbera hvern hann mun tilnefna fyrir lok febrúar.

Staðan í Hæstarétti Bandaríkjanna er á þann veg að sex dómarar voru skipaðir af forsetum Repúblikanaflokksins og þykja íhaldssamir og þrír voru skipaðir af Demókrötum og þykja frjálslyndir.

Breyer, sem er 83 ára gamall, var skipaður til Hæstaréttar Bandaríkjanna af Bill Clinton árið 1994. Hann hefur verið undir nokkrum þrýstingi um að stíga til hliðar svo Biden geti skipað nýjan og yngri dómara.

Stephen Breyer tilkynnti í vikunni að hann ætlaði að láta af störfum.AP/Andrew Harnik

Donald Trump, fyrrverandi forseti, tilnefndi þrjá dómara til Hæstaréttar, eftir að Repúblikanar í öldungadeildinni komu í veg fyrir að Marick Garland, sem Barack Obama, forveri Trumps, tilnefndi til Hæstaréttar á síðasta ári sínu í embætti, yrði staðfestur í embættið.

Þá sagði Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, að of stutt væri í kosningar. Rúmir tíu mánuðir voru í forsetakosningar.

Í stjórnartíð Trumps tók Hæstiréttur Bandaríkjanna mikla sveiflu til hægri en Trump tilnefndi þrjá unga íhaldsmenn sem komust öll í gegnum öldungadeildina en með mismiklum erfiðleikum.

Sú síðasta sem Trump tilnefndi var Amy Coney Barrett. Repúblikanar keyrðu tilnefningu hennar áfram af miklum krafti en frá því hún var tilnefnd og tilnefningin samþykkt af öldungadeildinni liðu einungis 27 daga.

Tilnefningin var staðfest þann 27. október 2020, 38 dögum fyrir forsetakosningar. 

Demókratar óttast að lenda í sambærilegum aðstæðum á nýjan leik. Tilnefningar til Hæstaréttar Bandaríkjanna þurfa að fara í gegnum öldungadeild Bandaríkjaþings en þar er skipting þingmanna 50-50 milli Demókrata- og Repúblikanaflokksins, þar sem Kamala Harris, varaforseti hefur úrslitaatkvæði.

Falli öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins skyndilega frá eða veikist gæti staða Demókrata orðið mjög erfið mjög hratt.

Til viðbótar við vandræði Demókrata eru nokkrar deilur innan flokksins sem snúa að þingmönnunum Joe Manchin og Kyrsten Sinema. Þau eru íhaldssamari en gengur og gerist í Demókrataflokknum og hafa staðið í vegi mikilvægra frumvarpa fyrir Demókrataflokkinn og Biden.

Þessar ástæður, og aðrar, hafa leitt til þess að Demókratar óttast frekari hægri sveiflu í Hæstarétti og hafa margir þrýst á Breyer um að stíga til hliðar. Það virðist hafa skilað tilætluðum árangri.

Samkvæmt frétt Washington Post hafa Biden og aðstoðarmenn hans verið að leita að dómara til að tilnefna í minnst mánuð. Kamalla Harris, varaforseti og fyrsta litaða konan til að gegna því embætti, mun hafa mikið um ákvörðunina, samkvæmt Jan Psaki, talskonu Bidens.

Sjá einnig: Segja Biden munu standa við lof­orð um að til­nefna svarta konu

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, ætlar að hafa hraðar hendur.

„Öldungadeildin mun halda sanngjarn staðfestingarferli sem mun ganga hratt svo við getum staðfest nýjan dómara til að taka við að Breyer eins fljótt og auðið er,“ sagði hann í yfirlýsingu sem New York Times vitnar í.

Forsvarsmenn dómsmálanefndar öldungadeildarinnar eru þegar byrjaðir að undirbúa nefndarfundi um tilnefningu Bidens, samkvæmt frétt Politico.

McConnell vill ekki öfgamann

Mitch McConnell, ræddi við blaðamenn í Kentucky í vikunni og varaði Biden við því að tilnefnda „öfga-vinstri“ dómara í embættið. Hann gaf í skyn að Biden ætti að tilnefna einhvern sem væri við miðjuna því „þjóðin hefði kosið öldungadeild deildist jafnt milli flokk“.

Því sagði McConnell að Biden hefði ekki umboð til að leiða þjóðina til vinstri heldur ætti hann að sameina þjóðina og tilnefnda dómara sem hefði sýnt fram á að hann myndi fylgja bókstaf stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Hér er vert að taka fram að fimmtíu öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa rúmlega fjörutíu milljónir færri Bandaríkjamenn á bak við sig en öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins.

McConnell hét því samt að hann muni meta þann dómara sem Biden tilnefnir af „sanngirni“.

Susan Collins, þingkona Repúblikanaflokksins, hefur einnig kallað eftir því að þingmenn taki sér góðan tíma til að skoða hvern þann sem Biden tilnefnir. Hún sagði við blaðamenn í vikunni að staðfestingarferli Amy Coney Barrett hefði gengið of hratt og sagði mikilvægt að vanda til verks.

Reglan um aukinn meirihluta gildir ekki

Við hefðbundndar kringumstæðu er ekki nóg að vera með meirihluta í öldungadeildinni til að koma málum þar í gegn. Það er vegna sérstakrar reglu um málþóf í öldungadeildinni.

Hún kallast reglan um aukinn meirihluta.

Reglan um aukinn meirihluta

Reglan segir til um að þörf sé á 60 atkvæðum af hundrað fyrir flest frumvörp en á ensku kallast þessi regla „filibuster“. Hún felur í raun í sér að hvaða þingmaður sem er getur tafið störf þingsins með málþófi, nema minnst 60 þingmenn greiði atkvæði gegn því.

Á árum áður þurftu þingmenn að standa í pontu og halda ræður til að stöðva störf þingsins með málþófi en því var breytt á þá leið að þingmenn þyrftu bara að lýsa því yfir að þeir ætluðu að tefja störf þingsins og ekki standa í pontu.

Það þarf þó einungis 51 atkvæði til að fella regluna niður.

Eins og áður segir skiptist deildin jafnt milli flokka, 50-50. 

Árið 2013 notuðu Repúblikanar þessa reglu til að koma í veg fyrir að Barack Obama gæti tilnefnt alríkisdómara og ýmsa embættismenn í embætti. Það leiddi til þess að Demókratar breyttu reglunum þannig að það þyrfti einungis 51 atkvæði til.

Þær breytingar náðu þó ekki til tilnefnininga til Hæstaréttar.

Þegar Trump tók við embætti árið 2017 breyttu Repúblikanar fljótt reglunum á nýjan leik svo þær næðu einnig til Hæstaréttar. Þess vegna gátu Demókratar engar varnir veitt þegar Trump tilnefndi þrjá dómara í forsetatíð sinni.

Demókratar þurfa því einungis 51 atkvæði til að staðfesta tilnefningu Bidens. Það gæti þó reynst erfitt í framkvæmd og þá sérstaklega vegna áðurnefndra deilna innan flokksins. Hver einasti Demókrati þarf að standa saman til að ná tilnefningunni í gegn, eða flokkurinn þarf að treysta á stuðning frá Repúblikönum.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur brást vonum Trumps

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði í gær kröfu Donalds Trump, fyrrverandi forseta, um að þingnefnd sem rannsakar árásina á þinghúsið í fyrra fengi ekki aðgang að gögnum hans. Lögmenn Trumps höfðu vonast eftir því að koma í veg fyrir afhendingu gagnanna en nú er sú von úti.

Hæstiréttur hlýðir á mál er varðar vopnaburð á almannafæri

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun í dag hlýða á málflutning í máli sem varðar annan viðauka stjórnarskrár landsins, þar sem fjallað er um skotvopnaeign. Málið varðar lög í New York, sem takmarka verulega rétt fólks til að bera skotvopn.

Dómarar gætu leyft stefnur vegna þungunar­rofs­bannsins í Texas

Íhaldssamir dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna virtust hallast að því að leyfa heilsugæslustöðvum sem framkvæmda þungunarrof að höfða mál til að fá bann við þungunarrofi í Texas ógilt þegar mál þeirra var tekið fyrir í dag.

Þungunarrofsbannið í Texas fær enn að standa

Umdeilt þungunarrofsbann í Texas fær áfram að standa þrátt fyrir að það virðist stríða gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna eftir að alríkisdómstóll hafnaði kröfu dómsmálaráðuneytisins um að fella það úr gildi tímabundið í gær.

Hæstiréttur neitar að fella „hjartsláttarlöggjöfina“ úr gildi

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur hafnað því að fella úr gildi ný lög í Texas sem banna þungunarrof í nær öllum tilfellum. Lögin tóku gildi í gær og kröfðust þá fjöldi samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs þess að Hæstiréttur landsins myndi fella þau úr gildi.

Takmarkanir repúblikana á kosningum fá grænt ljós

Hæstiréttur Bandaríkjanna lagði blessun sína yfir strangari reglur um kosningar sem repúblikanar í Arizona samþykktu árið 2016 í dag. Lögin voru talin koma sérstaklega niður á minnihlutahópum sem eru líklegri til þess að kjósa demókrata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×