Erlent

Mesta íhaldssveifla í hæstaréttinum í áratugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Barrett með Trump forseta við Hvíta húsið í gær.
Barrett með Trump forseta við Hvíta húsið í gær. AP/Alex Brandon

Hugmyndafræði Hæstaréttar Bandaríkjanna er líkleg til að taka skarpa hægribeygju til næstu áratuganna eftir að Donald Trump forseti tilnefndi Amy Coney Barrett, íhaldssaman áfrýjunardómara, til að taka sæti Ruth Bader Ginsburg í gær. Demókratar eru sagðir ætla að berjast gegn skipan Barrett á þeim forsendum að hún muni ásamt meðdómurum sínum afnema sjúkratryggingalög sem sett voru í tíð Baracks Obama.

Barrett var kynnt sem dómaraefni Trump við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu í gær. Hún er 48 ára gömul og var lagaprófessor við Notre Dame þar til Trump skipaði hana alríkisdómara við áfrýjunardómstól 7. svæðis árið 2017. Repúblikanar í öldungadeildinni róa nú að því öllum árum að staðfesta hana í embættið fyrir kjördag en útlit er fyrir að þeir gætu misst meirihluta sinn þar í kosningunum.

Talið er að Barrett verði á meðal þriggja íhaldssömustu dómaranna við réttinn. Hún tekur sæti Ginsburg, sem lést á föstudag fyrir rúmri viku, sem var einn frjálslyndasti dómarinn. Verði Barrett staðfest í embætti verða íhaldssamir dómarar þar með komnir í öruggan meirihluta í réttinum, með sex atkvæði gegn þremur frjálslyndari dómurum.

Hugmyndafræðileg miðja hæstaréttarins hefur ekki tekur svo skarpa sveiflu frá því að Clarence Thomas tók sæti Thurgood Marshall árið 1991. Thomas er almennt talinn íhaldssamasti dómarinn við hæstarétt.

Útlit er fyrir að Trump nái nú að skipa þrjá hæstaréttardómara á einu kjörtímabili. Þeir eru allir tiltölulega ungir og gætu setið við réttinn í fleiri áratugi. Bandarískir hæstaréttardómarar eru skipaðir til lífstíðar.

Gæti leyft frekari takmarkanir á þungunarrofi

Barrett er þekkt fyrir íhaldssamar skoðanir sínar og kristnir íhaldsmenn úr stuðningsliði Trump forseta lögðu allt kapp á að hún yrði fyrir valinu sem hæstaréttardómari. Hún er heittrúaður kaþólikki en fullyrðir hún láti það ekki byrgja sér sýn við túlkun stjórnarskrárinnar.

Sem áfrýjunardómari vildi hún leyfa harðlínustefnu Trump forseta í innflytjendamálum að standa og færði rök fyrir því að ekki ætti að svipta menn sem hafa hlotið sakadóma þar sem ofbeldi kom ekki við sögu réttindum til byssueignar.

Kvenréttindasamtök og samtök um rétt kvenna til þungunarrofs óttast að með Barrett í meirihlutanum gæti íhaldsmenn við hæstarétt nú snúið við fordæmi úr máli Roe gegn Wade frá árinu 1973 um að konur njóti stjórnarskrárvarins réttar til þungunarrofs. Í skásta falli gæti hún leyft ríkjum sem repúblikanar stjórna að þrengja að aðgengi til þungunarrofs í sínum ríkjum.

„Ég tel mjög ólíklegt á þessum tímapunkti að rétturinn snúi við [Roe gegn Wade]. Grundvallaratriðið, að kona eigi rétt á að velja þungunarrof, mun líklega standa,“ sagði Barrett í fyrirlestri við Notre Dame árið 2013, að sögn AP-fréttastofunnar.

Helstu spurninguna taldi Barrett þá hversu mikið frelsi rétturinn væri tilbúinn að gefa einstökum ríkjum til að setja takmarkanir um þungunarrof. Helstu málin sem varða þungunarrof sem hafa komið til kasta hæstaréttar undanfarin ár hafa varðað lög sem ríki hafa sett sem takmarka verulega aðgengi kvenna að aðgerðinni.

Þungunarrof hefur lítið komið til kasta Barrett við áfrýjunardómstólinn í Chicago sem tekur fyrir mál frá Indiana, Illinois og Wisconsin. Hún skilaði sératkvæði þegar rétturinn ógilti tvenn lög sem takmörkuðu aðgengi að þungunarrofi sem voru sett í Indiana.

Barrett var lagaprófessor við Notre Dame-háskóla við góðan orðstír. Hún er sjö barna móðir en tvö barna hennar voru ættleidd frá Haíti. Eiginmaður hennar er fyrrverandi saksóknari.AP/Alex Brandon

Útlit fyrir snögga afgreiðslu í öldungadeildinni

Demókratar hafa kallað eftir því að Barrett verði ekki staðfest í embætti fyrir kosningar. Vísa þeir til þess að Mitch McConnell, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, neitaði að taka tilnefningu Baracks Obama til hæstaréttardómara til umfjöllunar vegna þess að of skammt væri til kosninga árið 2010. Tíu mánuðir voru til kjördags þegar Antonin Scalia lést í febrúar árið 2016. Nú er rúmur mánuður til kosninga.

Nær öruggt er þó að repúblikanar hafi stuðning nægilega margra þingmanna sinna í öldungadeildinni til þess að staðfesta Barrett í embætti fyrir kjördag. Lindsey Graham, formaður dómsmálanefndar þingsins og náinn bandamaður Trump forseta, ætlar að líkindum að hefja umfjöllun nefndarinnar um Barrett 12. október. Nefndin tæki sér þrjá til fjóra daga til að gaumgæfa Barrett, hefur Reuters-fréttastofan eftir Graham.

„Þetta mun ganga hratt fyrir sig. Við erum að skoða að gera það fyrir kosningarnar. Þannig að þetta mun ganga mjög hratt fyrir sig,“ sagði Trump í gær.

Reuters-fréttastofan segir þetta óvanalega nauman tíma sem þingmenn fá til þess að búa sig undir umfjöllun um hæstaréttarefnið. Síðustu sex dómararnir sem voru skipaðir við réttinn þurftu að bíða í um átta vikur áður en þingið hóf umfjöllun sína.

Repúblikanar eru með 53 sæti í öldungadeildinni gegn 47 sætum demókrata. Jafnvel þó að þrír þeirra gengu úr skaftinu gæti Mike Pence, varaforseti, höggvið á hnútinn ef atkvæði féllu jöfn. Demókratar hafa því lítil úrræði til þess að stöðva útnefningu Barrett.

Kamala Harris, varaforsetaefni Biden, á sæti í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar, og mun að líkindum fara fremst í flokki demókrata í að þjarma að Barrett þegar hún situr fyrir svörum í næsta mánuði.

Ruth Bader Ginsburg var fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna til að liggja á viðhafnarbörum í þinghúsinu á föstudag. Skarð hennar verður að öllum líkindum fyllt af dómara sem verður einn sá íhaldssamasti við hæstaréttinn.Vísir/EPA

Reyna að gera afnám sjúkratryggingalaganna að kosningamálinu

Washington Post segir að í stað þess að stöðva útnefningu Barrett muni demókratar reyna að nýta sér slaginn um hana til þess að tryggja sér sigur í bæði forseta- og þingkosningunum og mögulega seinka staðfestingu hennar fram yfir kosningar.

Skoðanakannanir hafa lengi sýnt Joe Biden, frambjóðanda demókrata, með forskot á Trump á landsvísu þó að munurinn sé minni í lykilríkjum sem ráða líklega úrslitunum. Þá eygja demókratar einnig möguleika á að ná meirihluta í öldungadeildinni, valdameiri deild Bandaríkjaþings.

Líklegt er að demókratar reyni að setja fyrirhugaða skipan Barrett við réttinn í samhengi við stefnu repúblikana um að afnema sjúkratryggingalögin um heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði sem kennd hafa verið við Obama, fyrrverandi forseta.

Repúblikönum tókst ekki að afnema lögin jafnvel þegar þeir fóru með meirihluta í báðum þingdeildum fyrstu tvö ár kjörtímabils Trump. Kannanir hafa sýnt að afnám laganna væri óvinsælt, ekki síst ákvæði þess um að banna tryggingafélögum að mismuna fólki sem á við undirliggjandi heilsukvilla að stríða.

Barrett lýsti óánægju sinni með niðurstöðu hæstaréttarins þegar hann leyfði lykilákvæði sjúkratryggingalaga Obama að standa árið 2012. John Roberts, forseti hæstaréttarins og einn íhaldsmanna við réttinn, greiddi þá atkvæði með frjálslyndari dómurum. Sjúkratryggingar milljóna Bandaríkjamanna voru þá í húfi.

„Roberts dómforseti ýtti lögunum um heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði umfram raunhæfa merkingu þeirra til þess að bjarga ákvæðinu,“ skrifaði Barrett, sem var eitt sinn dómsritari fyrir Antonin Scalia, dómarans sem skrifaði sérálitið í því máli.


Tengdar fréttir

Rom­n­ey tryggir meiri­hluta repúblikana fyrir dómara­efni Trump

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings virðast nú hafa tryggt sér atkvæði nógu margra þingmanna sinna til þess að geta staðfest dómaraefni Donalds Trump forseta til Hæstaréttar eftir að Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður frá Utah, sagði ætla að greiða atkvæði með því.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.