Erlent

Farga milljónum bólu­efna­­­skammta þrátt fyrir lágt bólu­­­setningar­hlut­­­fall

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nígeríumenn hafa þurft að farga milljónum skammta af bóluefninu gegn Covid-19, sem runnið hafa út áður en tekist hefur að nota þá.
Nígeríumenn hafa þurft að farga milljónum skammta af bóluefninu gegn Covid-19, sem runnið hafa út áður en tekist hefur að nota þá. AP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við því að ríki heims einblíni á að tryggja ríkisborgurum sínum örvunarskammta af bóluefninu gegn Covid-19. Frekar eigi að einblína á að tryggja öllum heimsbúum grunnbólusetningu til að stemma stigu við frekari þróun veirunnar.

Frá því að bóluefni gegn Covid-19 urðu fyrst aðgengileg í ársbyrjun 2021 hafa alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld hamrað á því að faraldinum ljúki ekki fyrr honum ljúki alls staðar. Bólusetningar fóru af stað í hinum vestræna heimi í byrjun síðasta árs og nú, ári síðar, eru margar þjóðir tví-, þrí og jafnvel fjórbólusettar gegn veirunni og mörgum hennar afbrigðum.

En hvað með hin löndin, löndin sem eru lægst í goggunarröðinni. Löndin sem ekki fengu jafnan aðgang að bóluefnum lyfjarisanna?

Farið var yfir málið í kvöldfréttum Stöðvar 2:

„Bóluefnaójöfnuður banar fólki og störfum og hefur grafið undan alþjóðlegum efnahagsbata. Alpha, beta, delta, gamma og ómíkron endurspegla þetta að hluta vegna þess að með lágri bóluefnatíðni höfum við skapað fullkomnar aðstæður fyrir þróun nýrra afbrigða veirunnar,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á dögunum. 

Farga milljónum skammta sem renna út fyrir notkun

Í dag hafa um 59 prósent heimsbúa fengið minnst einn skammt bóluefnisins gegn Covid-19 en aðeins rétt rúm níu prósent íbúa í lágtekjuríkjum. Skýr skil eru milli heimsálfanna, 66 prósent Evrópumanna hafa fengið minnst einn skammt af bóluefninu, 69 prósent íbúa í Norður-Ameríku en aðeins 15 prósent Afríkubúa.

Það má að miklu leyti rekja til þess að þeir bóluefnaskammtar sem vestræn ríki hafa sent Afríkuríkjum, til að mynda Nígeríu, í gegn um bóluefnaátakið Covax, hafa runnið út áður en þau hafa náð að nýta bóluefnaskammtana.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hefur verið gagnrýninn á ríkari þjóðir vegna bóluefnaójöfnuðar.AP/Salvatore Di Nolfi

Síðast í desember neyddust heilbrigðisyfirvöld í Nígeríu til að farga meira en milljón skömmtum af bóluefni AstraZeneca, en það hafði borist til landsins aðeins mánuði áður en það rann út.

„Við höfðum ekkert annað val en að þiggja þessa bóluefnaskammta, með stutt geymsluþol vegna þess að við viljum vernda íbúa okkar gegn Covid-19. Meira að segja þegar við tókum við bóluefnunum vorum við meðvituð um það að það væru hindranir í vegi okkar, sem við þyrftum að takast á við til þess að koma þessum bóluefnum í handleggi Nígeríumanna. Til dæmis voru mörg þessara efna aðeins með um fjögurra vikna geymsluþol,“ sagði Faisal Shuaib, yfirmaður Heilbrigðisþróunarstofnunar Nígeríu, í desember þegar farga þurfti bóluefninu. 

Höfðu selt nær alla bóluefnaskamma áður en bólusetningar hófust

En hvers vegna er staðan þessi? Hver vegna hafa allar ríkustu þjóðir heims náð að bólusetja meirihluta íbúa sinna á einu ári, jafnvel tví- og þríbólusetja en fátækari ríki varla hafið bólusetningar?

Strax árið 2020, þegar kórónuveiran fór að dreifast um heiminn, gerðu ríkustu þjóðir heims tvíhliða samninga við stærstu lyfjarisana um þróun á bóluefni gegn veirunni. Bandaríkin gerðu í maí 2020 samning við AstraZeneca um að þau myndu fjármagna þróun og framleiðslu boluefnisins um 1,2 milljarð bandaríkjadala og fékk þess í stað loforð um 300 milljónir skammta tækist vel til í þróun bóluefnisins. Bandaríkin voru ekki ein um að gera svona tvíhliða samninga, Bretland, Japan, Kanada og fleiri ríki gerðu viðlíka samninga við bóluefnaframleiðendur.

Það varð til þess að í ársbyrjun 2021 hafði Pfizer þegar selt um 96 prósent alls þess bóluefnis sem lyfjafyrirtækið stefndi á að framleiða það ár og Moderna hafði selt 100 prósent þeirra skammta sem það stefndi á að framleiða. Þannig að í janúar 2021 höfðu nokkur ríki, sem 16 prósent heimsbúa tilheyra, tryggt sér um helming þeirra bóluefnaskammta sem stefnt var á að framleiða það ár.

„Það eru allir mjög meðvitaðir um afleiðingar þess að ná ekki að bólusetja. Tilkoma nýrra afbrigða og nýrra áskorana. Því fyrr sem við náum jafnri dreifingu því fyrr komumst við út úr þessum faraldri,“ sagði Bruce Aylward, ráðgjafi yfirmanns Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, nýlega. 


Tengdar fréttir

Af­hending á bólu­efnum til snauðra ríkja nær stöðvast

Nær ekkert hefur verið afhent af bóluefni gegn kórónuveirunni til fátækustu ríkja heims frá því á mánudag og nú stefnir í að allt að sextíu ríki geti ekki gefið seinni skammt af bóluefni fyrr en í júní. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gagnrýnir harðlega misskiptingu í bólusetningum á milli ríkra þjóða og snauðra.

Ómíkron greinist í Ástralíu og WHO gagnrýnir auðugri þjóðir heims

Yfirvöld í Ástralíu hafa staðfest að tveir íbúar eru smitaðir af ómíkron-afbrigði Covid-19. Báðir voru að koma til landsins erlendis frá og eru fullbólusettir. Fólkið er nýkomið frá Suður-Afríku og greindist smitað í sóttkví í Sydney, höfuðborg Ástralíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×