Erlent

Margrét nú verið drottning í hálfa öld

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Þórhildur nýtur mikilla vinsælda í Danmörku, en í skoðanakönnun árið 2014 sögðust 85 prósent Dana andsnúnir því að afleggja konungsdæmið.
Margrét Þórhildur nýtur mikilla vinsælda í Danmörku, en í skoðanakönnun árið 2014 sögðust 85 prósent Dana andsnúnir því að afleggja konungsdæmið. AP

Danir fagna því í dag að fimmtíu ár eru liðin frá því að Margrét Þórhildur varð drottning landsins. Fyrirhuguðum hátíðarhöldum vegna valdaafmælisins hafði áður verið frestað til næsta hausts vegna heimsfaraldursins.

Margrét Þórhildur varð drottning Danmerkur 14. janúar 1972, þá 31 árs að aldri, þegar faðir hennar, Friðrik IX lést 72 ára að aldri. Þáverandi forsætisráðherra landsins, Jens Otto Krag, stóð svo ásamt Margréti á svölum Kristjánsborgarhallar, nítján klukkustundum eftir andlát konungsins og lýsti því formlega yfir að Margrét væri ný drottning landsins.

Þó að formlegri hátíðardagskrá hafi verið frestað verður afmælisins minnst með athöfn í þinghúsinu þar sem Mette Frederiksen forsætisráðherra og Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, verða meðal ræðumanna. Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, átti sömuleiðis að halda tölu en varð að boða forföll eftir að hann greindist með kórónuveiruna í gær.

Halda til Dómkirkjunnar í Hróarskeldu

Á hádegi munu Margrét Þórhildur og meðlimir fjölskyldu hennar halda til Dómkirkjunnar í Hróarskeldu þar sem krans verður lagður við leiði Friðriks IX og Ingiríðar drottningar, foreldra drottningarinnar.

Margrét fagnaði áttræðisafmæli sínu á síðasta ári en þá, líkt og nú, varð að fresta hátíðarhöldum vegna faraldursins.

Einungis Kristján IV, sem réð ríkjum á sautjándu öld, hefur setið lengur á konungsstól í landinu, eða 59 ár. Þá hefur einungis Elísabet II Englandsdrottning setið lengur en Margrét Þórhildur á drottningarstóli í Evrópu.

Þurfti þjóðaratkvæðagreiðslu til

Þjóðaratkvæðagreiðslu þurfti á sínum tíma til að Margrét Þórhildur gæti yfirhöfuð orðið drottning. 85 prósent landsmanna greiddu árið 1953 atkvæði með því að kona gæti tekið við krúnunni. Mikil undiralda var á þeim tíma með auknum feminisma í dönsku þjóðfélagi og sömuleiðis þeirri staðreynd að Friðrik og Ingiríður höfðu eignast þrjár dætur og engan son.

Margrét Þórhildur nýtur mikilla vinsælda í Danmörku og segir í frétt AP að samkvæmt skoðanakönnun árið 2014 sögðust 85 prósent Dana andsnúnir því að afleggja konungsdæmið.

Heimir Már Pétursson ræddi við Margréti Þórhildi í Kaupmannahöfn árið 2017 og þar kom Ísland sannarlega við sögu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.