Enski boltinn

Dagný þarf að bíða með að mæta Man. Utd vegna fjölda smita

Sindri Sverrisson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Tottenham. Lið hennar, West Ham, spilaði síðast 15. desember og að minnsta kosti mánuður mun líða milli leikja hjá liðinu nú þegar tveimur leikjum þess hefur verið frestað.
Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Tottenham. Lið hennar, West Ham, spilaði síðast 15. desember og að minnsta kosti mánuður mun líða milli leikja hjá liðinu nú þegar tveimur leikjum þess hefur verið frestað. Getty/Tom Dulat

Vegna fjölda kórónuveirusmita í leikmannahópi og starfsliði West Ham verður bið á því að landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir mæti Manchester United á þessari leiktíð, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Til stóð að liðin myndu mætast í Lundúnum á sunnudaginn, í beinni útsendingu á Sky Sports, en leiknum hefur nú verið frestað.

„Ákvörðunin var samþykkt af báðum liðum og enska knattspyrnusambandinu vegna gruns um fjölda tilvika af kórónuveirusmitum hjá leikmönnum og starfsliði okkar,“ sagði í tilkynningu frá West Ham.

Þetta er annar leikurinn í röð sem fresta þarf hjá Dagnýju og stöllum hennar en fyrir jólafríið var leik þeirra við Chelsea frestað vegna smita hjá Chelsea-liðinu.

Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að 40 leikmenn og starfsmenn liða í ensku kvennadeildinni hafi greinst með kórónuveirusmit í vikunni fram að og með 3. janúar. Leik Chelsea og Tottenham, sem spila áttu á morgun, hefur einnig verið frestað.

West Ham er í 6.-8. sæti af 12 liðum ensku deildarinnar, með 13 stig líkt og Manchester City og Reading. Arsenal er taplaust á toppnum með 25 stig en United er í 4. sæti með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×