Erlent

Betty White er látin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
White var heiðruð fyrir ævistarfs sitt á Screen Actors Guild Awards árið 2010.
White var heiðruð fyrir ævistarfs sitt á Screen Actors Guild Awards árið 2010. AP/Matt Sayles

„Jafnvel þótt Betty væri að verða 100 ára hélt ég að hún myndi lifa að eilífu,“ segir Jeff Witjas, umboðsmaður og náin vinur leikkonunnar Betty White, sem lést fyrr í dag.

White var einna þekktust fyrir að vera ein af The Golden Girls og fyrir hlutverk sitt í Hot in Cleveland. Yngri sjónvarpsunnendur muna mögulega eftir henni í óborganlegum hlutverkum í þáttaröðunum That '70 Show og Boston Legal.

Leikkonan var elskuð og dáð af öllum sem hana þekktu og stundum kölluð „gullstúlkan með gullhjartað“.

People ræddi við White á dögunum um 100 ára afmælið, sem hún hefði fagnað 17. janúar næstkomandi hefði hún lifað. „Ég er heppin að vera við svona góða heilsu og að líða svona vel á þessum aldri,“ sagði leikkonan.

Hún sagðist alla tíð hafa verið ákaflega jákvæð og bjartsýn og sagðist þakka langlífi sitt því að hafa forðast að borða „allt grænt“. Leiða má líkur að því að White hafi verið að grínast en hún var vel þekkt fyrir gott skopskyn og létta lund.

White fæddist í Oak Park í Illinois og var eina barn foreldra sinna. Sem barn dreymdi hana um að verða skógarvörður eða rithöfundur en féll fyrir leiklistinni í skóla. 

Eftir tvö alvarleg sambönd varð White ástfangin af leikjaþáttastjórnandanum Allen Ludden, sem hún sagði sína einu sönnu ást. Ludden lést úr magakrabbameini árið 1981.

Aðalleikararnir í Mary Tyler Moore Show; f.v. Ed Asner, White, Moore og Ted Knight.AP/Reed Saxon

White hlaut sína fyrstu Emmy-tilnefningu árið 1951 og hlaut tvær í viðbót fyrir hlutverk sitt í The Mary Tyler Moore Show. Hún sló svo í gegn sem ein af The Golden Girls og lék í þáttunum frá 1985 til 1992.

Í kringum aldamótin náði White til yngri áhorfenda sem Bea Sigurdson í That '70 Show og sem Catherine Piper í Boston Legal. Þá lék hún í myndinni The Proposal með Söndru Bullock og Ryan Reynolds.

White var á löngum ferli tilnefnd til alls 21 Emmy-verðlauna og hlaut mörg önnur. Hún sagði í samtali við People í janúar síðastliðnum að skopskyn væri lykillinn að löngu og hamingjuríku lífi.

„Að horfa á björtu hliðarnar og eyða ekki tíma í það neikvæða. Neikvæðni krefst of mikillar orku,“ sagði hún. Árið 1999 sagðist hún leitast við að gera sem mest úr hverjum degi. „Það er eins gott að átta sig á því hversu gott lífið er á meðan þú lifir því,“ sagði hún. „Áður en þú veist verður það liðið hjá.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×