Enski boltinn

United hafnaði tilboði Sevilla

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Martial virðist hafa stigið sinn hinn dans fyrir Manchester United en rétt tilboð þarf að berast til þess að félagið sleppi honum.
Anthony Martial virðist hafa stigið sinn hinn dans fyrir Manchester United en rétt tilboð þarf að berast til þess að félagið sleppi honum. Getty/Matthew Peters

Manchester United hefur hafnað tilboði frá spænska félaginu Sevilla sem freistaði þess að fá Frakkann Anthony Martial að láni út tímabilið.

Martial hefur tjáð Ralf Rangnick, nýjum stjóra United, að hann vilji fara frá félaginu. Rangnick hefur hins vegar sagt að það gerist aðeins ef rétt tilboð berist.

Samkvæmt frétt BBC vildi Sevilla fá Martial að láni en aðeins greiða helminginn af launum hans, sem sögð eru nema um 150.000 pundum á viku eða um 26 milljónum króna.

Ekki er víst að United sé tilbúið að lána Martial en ljóst er að það verður aðeins ef laun leikmannsins verða fullgreidd af félaginu sem fær hann, auk ákveðinnar upphæðar.

Martial, sem er 26 ára gamall, kom til United frá Monaco árið 2015 fyrir 36 milljónir punda og varð þá dýrasti táningur allra tíma.

Hann hefur skorað 79 mörk í 268 leikjum fyrir United en færst aftar í goggunarröðina hjá félaginu eftir komu Cristiano Ronaldo, Edinson Cavani og Jadon Sancho.

Martial á enn eftir að spila leik undir stjórn Rangnicks og hefur aðeins komið við sögu í tíu leikjum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×