Enski boltinn

Leikur Tottenham og Crystal Palace fer fram þrátt fyrir mikla óvissu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Tottenham og Crystal Palace tókust á þegar liðin mættust fyrr á þessu tímabili.
Leikmenn Tottenham og Crystal Palace tókust á þegar liðin mættust fyrr á þessu tímabili. Rob Newell - CameraSport via Getty Images

Mikil óvissa hefur ríkt síðan í gærkvöldi varðandi það hvort að leikur Tottenham og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni muni fara fram í dag, en nú hefur það verið staðfest að liðin munu mætast á Tottenham Hotspur leikvangnum klukkan 15:00.

Seint í gærkvöldi birti miðillinn Football London grein þess efnis að leikur liðanna yrði ekki spilaður í dag vegna kórónuveirusmita innan herbúða Crystal Palace.

Síðan þá hefur mikil óvissa ríkt í kringum leikinn og hinir ýmsu sérfræðingar velt fyrir sér hvort að leikurinn yrði sá fjórði sem átti að fara fram í dag til að verða frestað.

Leikjum Liverpool og Leeds, Wolves og Watford og að lokum Everton og Burnley hefur öllum verið frestað vegna fjölda kórónuveirusmita innan herbúða liðanna.

Opinberar Twitter-síður Tottenham og Crystal Palace birtu báðar færslu nú fyrir skemmstu þar sem að tekið er fram að leikur liðanna muni fara fram.

Tottenham og Crystal Palace eru að mætast í annað sinn á tímabilinu, en fyrri leikur liðanna endaði með 3-0 sigri Palace þar sem að öll mörkin voru skoruð á seinasta stundarfjórðungi leiksins eftir að Japhet Tanganga fékk að líta rauða spjaldið í liði Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×